07.08.1915
Efri deild: 26. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 768 í B-deild Alþingistíðinda. (890)

89. mál, kosningaréttur og kjörgengi

Hákon Kristófersson :

Jeg vildi að eins gjöra örstutta aths. við orð háttv. 4. kgk. þm. (B. Þ.). Hann virðist hafa skilið orð mín svo, sem jeg hafi haldið því fram, að sama persónan þyrfti, ef til vill, að vera á sama tíma í báðum nefndunum. En það var alls ekki það, sem jeg átti við. Jeg sagði, að hjón gætu verið í báðum nefndunum og gæti hlotist bagi af því. Mjer er vel kunnugt um það, að vorfundur hreppsnefndarinnar er oft á sama tíma og fundur sýslunefndarinnar. Annars get jeg þess, að mjer þykir leitt, ef háttv. flutnm. (B. Þ.) hefir skilið mig svo, sem jeg vildi leggja fót fyrir frv., því svo er eigi, og finst mjer sjálfsagt, að málinu verði sýnd sú kurteisi, að visa því til umr. Vil líka geta þess, að þó jeg teldi betur fara á því, að konur verði undanþegnar því, að vera skyldar til að taka á móti kosningu, virðist mjer á hinn bóginn og sjálfsagt, að auknum rjettindum fylgi auknar skyldur, og við það verði kvenfólk að sætta sig eins og karlmenn.