26.08.1915
Efri deild: 43. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 774 í B-deild Alþingistíðinda. (894)

89. mál, kosningaréttur og kjörgengi

Björn Þorláksson:

Þetta mál, sem hjer liggur fyrir, var hjer á ferðinni til 1. umr. fyrir nokkuð löngu síðan. Sem flutningsmaður frumvarpsins tók jeg þá fram aðalröksemdirnar fyrir því, að frumvarpið ætti fram að ganga. Það er ekki ætlun mín að telja þær ástæður upp aftur, enda ætti þess ekki að gjörast nein þörf. Jeg var svo óheppinn, að málið lenti hjá nefnd, þar sem meiri hlutinn var frumvarpinu mótsnúinn, og leit helst út fyrir að málið ætlaði að sofna i nefndinni. Einn nefndarmaðurinn var þó málinu hlyntur, og honum er það að þakka, að það er aftur komið fyrir háttv. deild. Eins og jeg tók fram, þá ætla jeg mjer ekki að taka upp aftur þau rök, sem jeg flutti í framsögu minni við 1. umr., enda eru þau öllum augljós, og háttv. framsögumaður minni hlutans tók líka flest fram, svo jeg hefi þar litlu við að bæta. En jeg vildi aðallega víkja máli mínu til þeirra, sem eru því mótfallnir, að þessi sjerrjettindi kvenmanna verði úr lögum numin.

Það er alveg rjett, að jeg hefi ávalt haldið því fram, að jöfnum rjettindum ætti að fylgja jafnar skyldur. Framsögumaður meiri hlutans (K. D.) neitaði þessu ekki heldur, en hann færði einungis til nokkur dæmi þess, að þetta færi ekki ávalt saman, en aðalreglan stendur eftir jafn óhögguð. En aðalatriðið í þessu máli er þó það, að ranglátt virðist, að þegar öðrum helmingi mannfólksins eru veitt rjettindi, án þess að nokkrar skyldur fylgi, þá skuli hinn helmingurinn, sem að vísu hefir sömu rjettindi, verða að bera allar skyldurnar. Háttvirtur framsögumaður hjelt því fram, að ekki ætti fremur að skylda konur til að sitja í bæjar- og sveitarstjórnum, heldur en karlmenn til að taka við þingmensku. En þetta er ómögulegt að bera saman. Það hefir aldrei neinn verið skyldur til að taka að sjer þingmensku, enda virðist það alls ekki vera nauðsynlegt, því það starf er svo eftirsókt. En hins vegar virðist vera nauðsynlegt, að skylda menn til að taka að sjer bæja- og sveitastjórnarstörfin, sjerstaklega sveitastjórnarstörfin, því þau eru ólaunuð og oft vanþökkuð. Ef menn geta skorast undan kosningu, er hætt við að hæfustu mennirnir mundu verða ófáanlegir til þess, að taka að sjer starfið, og er það illa farið. Eins og kunnugt er, þá fá oddvitar einir laun, og leiðir það vitanlega af fátækt okkar. Við höfum ekki efni á að launa aðra. Þessi störf, verður því að skoða sem trúnaðarstörf, og þó þau sjeu oft vanþökkuð, þá er það engin ástæða til þess, að konur skuli vera lausar undan þeirri skyldu, að gegna þeim. Konur geta engu síður unnið kauplaust en karlmenn, og þær eiga ekkert óhægara með að þola vanþakklæti en þeir. Mjer finst því ekki nein ástæða til þess, að kvíða því, að konur geti ekki leyst störfin af hendi. Þá konur sjeu veikari en karlmenn, þá verður því ekki neitað, að þær hafa mikið þrek og mikla seiglu. Það eru mörg dæmi þess, að konur hafa leyst af hendi þau störf, sem fæstir karlmenn hefðu haft þrek til. Jeg vil t. d. minna á ferðalög yfirsetukvennanna. Jeg hygg, að ekkert starf sje erfiðara en yfirsetukvennastarfið í stórum hjeruðum hjer á landi.

Jeg get því ekki sjeð, að neitt verulegt mæli á móti því, að fella úr lögunum þetta ákvæði, sem hjer ræðir um. Það er að vísu satt, að konur hafa ekki alment látið í ljós, að þær óskuðu eftir þessu. En konur hafa óskað eftir jafnrjetti við karlmenn og margsinnis sent þinginu áskoranir þess efnis. Jeg man eftir því, að einu sinni kom til þingsins áskorun frá 7–8 þúsund konum i þá átt. Og jeg hygg, að flestar hafi gengið að því vísu og talið það sjálfsagt, að ef þær fengju sömu rjettindi og karlmenn, þá ættu þeir auðvitað að bera sömu skyldur, og hefðu þær ekki gjört það, þá hefðu það ekki getað talist meðmæli með kvenfólkinu.

Sumir eru hræddir um það, ef þetta frv. nær fram að ganga, þá verði það til þess, að konan vanræki fremur húsmóðurskyldu sína, er hún fer að taka þátt í opinberum störfum. En jeg er ekki hræddur um það. Einu konurnar sem hjer hafa haft opinber störf, eru yfirsetukonurnar. En jeg þekki ekki þess dæmi, að þær hafi vanrækt húsmóðurskyldur sínar eða húsmóðurstörf vegna þess. Þá vil jeg víkja aftur að þeirri ástæðu gegn frumvarpinu, að konurnar sjálfar hafi ekki óskað eftir þessari breytingu. En mjer er privat kunnugt um það, að margar hinar hyggnari og gætnari konur telja þessa heimildi vera til skaða fyrir kvenfólkið sjálft, og vilja að hún sje úr lögum numin. Þær vilja að konurnar taki að sjer þau mál, er þær geta, og að þær hafi sama rjett og sömu skyldur og karlmennirnir.

Meðan þessi heimild er í lögum, þá er hætt við að hún verði til þess, að margar konur dragi sig í hlje frá störfunum. Þær eru þeim óvanar, bera kvíðboga fyrir þeim, og halda störfin vera þyngri en þau eru í raun og veru:

En þetta kemur ekki til, ef þær eru skyldar til að taka þau að sjer.

En því miður er það nú oft svo, að það eru þær konurnar, sem hæfastar og færastar eru, sem draga sig í hlje. Þess kann jeg fleiri dæmi. Mun þar feimni miklu um valda.

En skaðsemi sú, er af þessu leiðir, má vera hverjum þeim augljós, er um málið vill hugsa. Afleiðingin verður óneitanlega sú, að þær, sem síður eru færar, verða til starfsins kosnar, og verður því verr unnið en ella hefði verið. Og það er slæmt fyrir þjóðfjelagið.

Jeg get hugsað mjer eina verulega ástæðu á móti frv., og hún er sú, að menn treysti konum eigi til þess, að leysa störfin viðunandi af hendi. Um þessa ástæðu er ekki gott að deila, því hún er þeim, er henni halda fram, tilfinningamál. Skal jeg því ekki lasta neinn, þó hann af þessari ástæðu kunni að vera á móti frv. Jeg treysti konunum til að gegna opinberum störfum eins vel og okkur karlmönnunum, hvort sem störfin eru launuð eða ólaunuð trúnaðarstörf. Jeg ber þetta traust til kvenfólksins yfirleitt, og jeg vona, að sú von mín rætist, og því vil jeg að þessi heimild verði sem fyrst numin úr gildi.

Mjer er umhugað um það, að hvarvetna sem er i lífinu, þá leggi þeir menn fram krafta sína, sem hafa þá besta, og jeg vil ekki neinar undanþágur eða sjerrjettindi handa kvenfólkinu. Meiri hluti nefndarinnar talar um það, að það sje ekki knýjandi nauðsyn til þess að konurnar hafi þessa skyldu, eins og karlmennirnir. En jeg tel það enga ósanngirni í garð kvenna, þó þær hafi hjer um sömu skyldu og karlmennirnir, og þær, sem færastar væru, væru kosnar til starfans. Af því gæti eigi leitt annað en gott eitt.

Ekki er jeg neitt hræddur um það, að þetta mundi leiða til þess, að konum yrði þröngvað til starfa. Það er nú oft svo, að þótt við karlmennirnir sjeum starfskyldir, þá erum við eigi kosnir, þegar persónulegar ástæður, t. d. fátækt, gjöra það að verkum, að menn eiga örðugt með að leysa starfið af hendi.

Og eins yrði það um konurnar, að þær mundu eigi vera kosnar, ef heimilishagurinn leyfði það ekki, t. d. fátækt, veikindi, barnafjöldi. Svo mikil er sanngirni manna hjer á landi.

En eina og jeg tók áður fram, þá er þetta nauðsyn fyrir oss sjálfa. Ef þessi heimild er áfram, verður hún til þess, að miður hæfar konur eru til starfans valdar. Og þegar miður hæfar konur eru valdar, þá getur það hæglega orðið til þess, að þeim mönnum fjölgi, sem álíta konur óhæfar til starfans, og vantraust á þeim farið vaxandi. Þeir segðu sem svo, til hvers er að láta konur hafa þenna rjett, ef hann annaðhvort er aldrei eða illa notaður. Og því gæti að lokum farið svo, að sumir vildu svifta konur aftur kjörgengi til sveita- og bæjastjórna.

Jeg finn svo ekki ástæðu til að tala frekar um málið. Langar tölur munu sjaldan breyta skoðun manna. Jeg legg málið undir dóm háttv. deildar.