26.08.1915
Efri deild: 43. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 778 í B-deild Alþingistíðinda. (895)

89. mál, kosningaréttur og kjörgengi

Kristinn Daníelsson; Jeg þarf eigi að tala langt mál, því jeg hefi áður drepið á flest atriði í ræðu háttv. 4. kgk. þm. (B. Þ.). Hann var að tala um að rjettur og skyldur eigi að fara saman. En karlmennirnir hafa lengi haft allan rjettinn, og þar sem konur hafa nú nýverið fengið rjett sinn viðurkendan þá finst mjer vera rjettast, að þvínga ekki upp á þær skyldunum. Og þar sem háttv. 4, kgk. þm, (B. Þ.) er að tala um, að rjettindi og skyldur fylgist alt af að, þá hefi jeg sýnt fram á, að svo er engan veginn ætíð.

Öðru máli er að gegna um yfirsetukonurnar, sem háttv. þm. nefndi. Venjulegast er það svo, að þetta starf stunda konur, aðallega að eins á því skeiði; sem móður- og heimilisskyldur hindra það ekki að mun. Svo er það að minsta kosti, þar sem mjer er kunnugt, í stórum og smáum umdæmum.

Háttv. 4. kgk. þm. (B. Þ.) mintist á þær ótal mörgu undirskriftir, er Alþingi bárust frá kvenfólkinu um aukinn rjett sinn. En þær báðu ekki um þetta. Og jeg tel rjett að losa þær við skyldurnar. Jeg tel það rjett, að þær, sem það vilja, megi draga sig i hlje, því þær hafa væntanlega einhverja ástæðu til þess.

Hins er ekki að dyljast, að fyrir getur komið, að konur, er hafa góða hæfileika, sjeu tregar að gefa kost á sjer, eða hafa sig frammi, en þá munu aðrir reyna, að fá þær til þess, að gefa kost á sjer, ef það er unt fyrir þær.

Jeg mótmæli því, að till. mínar sjeu sprotnar af vantrausti á konum. Jeg veit, að þær eru margar vel til slíkra starfa fallnar. En jeg vil hins vegar ekki, að þeim sje þröngvað til þess, og get ekki látið mjer nægja þá fullyrðingu, að í reyndinni mundi ekki til þess koma. Kali og hefndargirni verður stundum annars eins valdandi, eða önnur atvik.