06.09.1915
Efri deild: 53. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 782 í B-deild Alþingistíðinda. (904)

141. mál, þingfararkaup alþingismanna

Sigurður Stefánsson:

Mig furðar á ummælum háttv. flutnm. (G. B.), því þegar breyting var gjörð á þingfararkaupi alþingismanna, þá sagði hann, að þær breytingar væru í alla staði sanngjarnar. En hann telur atkvæðagreiðsluna um 6 krónu dagpeninga til embættismanna og starfsmanna landsins, vera ósanngjarna í garð þessara embættismanna, og hann vill hefna þess með því, að minka dagpeninga þingmanna. Hann vill með öðrum orðum hefna ranglætis með því, að fremja ranglæti. Á þessu furðar mig mjög mikillega, því það er þó annars fjarri háttv.5. kgk. þm. (G. B.), að vilja gjalda ilt með illu. Þetta hygg jeg að hann hafi ekki athugað nógu rækilega, áður en hann bar fram þetta frv.

Í 1. gr. laga um þingfararkaup alþing- ismanna stendur svo: „Alþingismenn skulu hafa 8 kr. þóknun daglega, bæði fyrir þann tíma, sem þeir sitja á Alþingi, og fyrir þann tíma, sem fer til ferða að heiman til Alþingis og frá Alþingi heim aftur.

Enn fremur skulu alþingismenn, sem búsettir eru utan Reykjavíkur, fá 2 kr. aukaþóknun daglega, meðan þeir dvelja á þingstaðnum“.

Þessi 8 kr. þóknun, sem hjer er nefnd, getur ekki skoðast sem fæðispeningar, heldur sem kaup fyrir starfið, sem þingmaðurinn innir af hendi. Tveggja krónu aukaþóknunin er aftur í raun rjettri fæðispeningar, þótt það nafn sje eigi haft á henni í lögunum. Með 2 kr. á þingmaðurinn að borga fæði sitt, húsnæði og þjónustu. Þegar þessa er gætt, sjest það, að samanburður háttv. 5. kgk. þm. (G. B.) á þingfararkaupi alþingismanna og fæðispeningum embættismanna á embættisferðum þeirra, er ekki rjettmætur; og hafi þingfararkaup það, sem ákveðið var 1912, verið sanngjarnt þá, væri miklu fremur ástæða til að hækka það en lækka nú, svo sem vinna og flest annað hefir hækkað í verði síðan. Þegar þingfararkaupið var hækkað 1912, var með góðum rökum sýnt fram á, að hækkunin hefði átt að vera miklu meiri en varð, svo framarlega sem þjóðin vildi borga fulltrúum sínum starf þeirra hlutfallslega jafn vel og hæfa þótti 1845. Borið saman við alt verðlag 1845 hefðu dagpeningar þingmanna 1912 átt að vera, ekki 10 kr., heldur 18 kr. Niðurstaðan varð þó sú, að 8 kr. þóttu viðunandi, auk 2 króna um þingtímann fyrir utanbæjar þingmenn, með því að þá væri eigi lengur sjálfsagt, að hver utanbæjar þingmaður tapaði stórfje við þingförina, en svo var það orðið nær undantekningarlaust.

Beri maður þetta þingfararkaup saman við þann kostnað, sem þingmenn utan af landinu verða að greiða, sökum fjarveru sinnar frá heimilum sínum um hábjargræðistímann, þá skil jeg síst, að nokkur þurfi að öfunda þá af kaupinu. Nú er mjer sagt, að jafnvel kaupakonu kaup sje komið upp í 20 kr. um vikuna, en hvað haldið þið að bændur, sem á þing fara, verði að borga ráðsmönnum sínum meðan þeir eru á þingi? Vill háttv. á kgk. þm. (G. B.) svara því? Og hvað þurfa embættismenn utan Reykjavíkur að borga fyrir rekstur embættis síns, meðan þeir eru að heiman. Jeg ætla ekki að gjöra neina áætlun um þetta; jeg veit það skiftir hundruðum króna, og auk þess má minna á það, hve óþægilegt það er fyrir búandi menn, að vera svo mánuðum skiftir heiman frá búum sínum. Þegar þess er gætt, sem hjer segir, skil jeg ekki í að nokkrum sanngjörnum manni þyki þingfararkaupið óhæfilega hátt. Og eigi veit jeg betur, en háttv. 5. kgk. þm. (G. B.) þætti það sanngjarnt nú fyrir nokkrum dögum, er breytt var tillögu þeirri, er þetta frv. hans er sprottið af, og jeg trúi vart öðru en hann verði enn að kannast við það í hjarta sínu, að það sje síst ofhátt. Ætti á annað borð að fara að jafna saman kaupi þingmanna og kaupi embættismanna, þegar þeir eru á ferðum, þá er sjálfsagt að taka kaup og fæðispeninga þingmannsins annars vegar, en hins vegar laun og fæðispeninga embættismannsins. Ferðakostnað sinn fær hann eftir reikningi, svo að hann kemur hjer ekki til greina.

Skal jeg taka þann, sem næstur er, hv. 5: kgk. þm. (G. B.), til samanburðar. Sem landlæknir hefir hann 4000 kr. í árslaun og 1000 kr. fyrir að kenna yfirsetukonum, eða 5000 kr. alls. Jeg skal taka það fram, að jeg tek háttv. 5. kgk. þm. (G. B.) af því hann er hendi næstur, en ekki af því, að jeg segi sð laun hans sjeu ofhá. Dagkaup hans með 5000 kr. árslaunum verður hjer um bil 13 kr. 70 aurar, þar við bætast svo þessar 6 krónur, sem hann á að hafa í fæðispeninga, auk ferðakostnaðar, og verður þá dagkaupið um 20 krónur. Þetta verður að teljast svo sæmilegt kaup, borið samsn við kaup alþingismanna, að engin ástæða sýnist að klípa af 8 kr. dagkaupi þingmanna. Ef alþingismaður þyrfti engu að kosta til reksturs atvinnu sinnar eða embættis, heima fyrir, meðan hann situr á þingi, gæti verið nokkuð öðru máli að gegna.

Það fer fjarri því, að jeg vilji hleypa nokkru kappi í málið. En segja verð jeg það, að mjer þykir ekki vel eiga við, að bera fram frv. þetta nú. Vjer sitjum nú líklega margir í síðasta sinni á þingi, og þá tel jeg það harla óviðkunnanlegt, að vjer látum það vera eitt af síðustu verkunum, áður en vjer yfirgefum þingsalinn; það er óneitanlega einhver eigingirniskeimur að því, að hafa hækkað þingfararkaupið, meðan vjer sátum á þingi, en lækka það svo, þegar vjer erum í þann veginn að kveðja, og það lýsir litlu trausti á eftirmönnum vorum, ef vjer trúum þeim ekki fyrir að lækka þingfararkaup sitt, ef þeim finst það of hátt.

Jeg met háttv. 5. kgk. þm. (G. B.) mikils, og játa það, að hann hefir komið með marga góða tillögu hjer á þingi, en um þetta frv. hans verður það naumast sagt; en hins vegar hef jeg oft heyrt hann segja, að hart sje að fella mál frá 2. umr. Því er það, að þrátt fyrir það, þótt jeg telji þetta frv. háttv. þm. alls eigi til þess fallið, að verða samþykt, þá vil jeg að beitt sje við það vægari aðferð, en að fella það þegar í stað, og þá hefir mjer hugkvæmst, að málið sje afgreitt með svohljóðandi rökstuddri dagskrá:

Í því trausti, að næsta reglulegt Alþingi taki mál þetta til íhugunar, ef það álítur þess þörf, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.

Bið jeg háttv. forseta að bera dagskrá þessa undir atkvæði að lokinni umræðu. Með þessu er málinu skotið til þingmanna þeirra, sem eftir oss koma; þá varðar það mestu, og því rjett, að þeir ráði úrslitum þess.