06.09.1915
Efri deild: 53. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 789 í B-deild Alþingistíðinda. (909)

141. mál, þingfararkaup alþingismanna

Jósef Björnsson:

Jeg ætla að eins að minnast á eitt atriði. Hv. 5. kgk. þm. (G. B.) komst svo að orði, þegar tilrætt varð um dagpeninga embættismanna, að þeir ættu að ferðast eins og alþingismenn. Þetta eru hans óbreytt orð, og jeg er honum samdóma um það, að embættismenn landsins eigi að ferðast sem menn, er eru í þeirri stöðu, er öll virðing ber. En jeg spyr: Hvernig er alþingismönnum borgað á ferðum þeirra? Ekki er þeim borgaður ferðakostnaður eftir reikningi, heldur eftir föstum taxta; og jeg skýt því til þeirra, sem um málið fjölluðu á þingi 1912, og veit að þeir muni játa það rjett vera, að sá taxti var miðaður við við ferðir á sjó, miðaður við fargjald, eftir fargjaldsskrám þeim, sem þá voru í gildi, að viðbættum fæðispeningum þeim, sem borga verður, sem sje 4–5 kr. á dag, og allknöpp dagatala áætluð. Þar var ekkert áætlað umfram þetta; þessi borgun nær því ekki einu sinni 5 kr. á dag, hvað þá 6 kr. Samanburðurinn verður því sá, að þingmaðurinn fær ferðakostnað sinn borgaðan eftir föstum, lögákveðnum taxta, en embættismaðurinn fær hann borgaðan eftir reikningi, og auk þess allt að ¼ hærri fæðispeninga. Hjer hallar því á þingmenn, borið saman við embættismenn. Þvert á móti því, sem hv. 5. kgk. þm. (G. B.) virtist halda fram.