30.07.1915
Efri deild: 19. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 792 í B-deild Alþingistíðinda. (916)

61. mál, fræðsla barna

Flutningsm. (Karl Finnbogason:

Jeg vil að eins mæla örfá orð með þessu stutta frumvarpi.

Síðan fræðslulögin komu, hefi jeg ávalt verið riðinn við prófin, ýmist sem prófdómari eða kennari. Og niðurstaðan af því hefir orðið sú, að jeg tel óþarft að halda árlegt próf yfir öllum börnum á aldrinum 10–14 ára, og eyða til þess fje úr landssjóði.

Jeg lít svo á, að landsstjórninni komi ekki við hvernig börnin eru búin undir á þeim aldri, ef þau að eins fullnægja þeim skilyrðum, sem sett eru fyrir fullnaðarprófi, þegar að því kemur. Þetta kemur líka heim við afskifti landsstjórnarinnar af annari kenslu. Á gagnfræðaskólunum er ekki koatað fje úr landssjóði til prófdómara, nema við fullnaðarpróf, eða burtfararpróf, og eins ætti það að vera við barnaskólana.

En auk þessa hefi jeg alveg sjerstakan tilgang með frumvarpinu. Við það, að hætta þessum óþörfu prófum, sparast fje, en því fje vil jeg láta verja til þess, að styrkja unga kennara til utanfarar, svo þeir geti flutt oss nýja og holla strauma fyrir þjóðfjelag vort, og geti fylgst með þeim framförum fræðslustarfsins, er stöðugt verða í öðrum menningarlöndum, og frætt oss, er heima sitjum, svo meira gott megi af oss leiða. En taka vil jeg það fram, sökum þess, hversu oft það heyrist klingja, „hann ætlar sjer þetta sjálfum“, að jeg ætla aldrei að sækja um þennan styrk, því jeg vil, að þeir, sem yngri eru, njóti hans; jeg tel þá betur til þess fallna en oss hina eldri, sem farnir erum að þreytast og dofna á margan veg.

Jeg vil svo mæla með, að skipuð verði þriggja manna nefnd, til þess að athuga málið að þessari umræðu lokinni.