14.09.1915
Efri deild: 61. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 802 í B-deild Alþingistíðinda. (931)

140. mál, heimild til dýrtíðarráðstafana

Kristinn Daníelsson :

Jeg skildi svo, sem því væri beint til mín, er hv. þm. Vestm. (K. E.) var að tala um það, að einn nefndarmanna hefði litið svo á, að með þessu væri sveitarstjórnum teflt í vanda, því það var jeg, er hjelt því fram í nefndinni.

Jeg verð að líta svo á, að frumv. þetta sje ekki til þess fallið, að verða að lögum; það ber vott um þetta fálm, er gripið hefir suma hv. þm., og kemur fram undir nöfn- unum: dýrtíðarnefnd, dýrtíðarskattur, dýrtíðaruppbót; dýrtíðarniðurjöfnun, dýrtíðarfálm, dýrtíðartollur, dýrtíðargjald, dýrtíðarráðstöfun o. s. frv.

Jeg tek undir með mönnum um, að hjer sje blandað saman dýrtíð og hallæri. Það er víst, að það er dýrtíð, en það er ekki hallæri. Jeg man það, að þegar jeg var ungur, þá báru menn engan kvíða, ef skip náðu því, að koma með matvöru. Ef hún kom, þá voru alt af einhver ráð til þess, að ná í hana.

En ef menn gefast upp, og geta ekki bjargað sjer, þá er það ekki nema gott og fallegt að hjálpa þeim, en það ætti þá að vera landshjálp, en ekki að segja við hvert sveitarfjelag, að það verði að bjarga sjer eins og best gengur. Þetta er stefnugalli á frumvarpinu.

Svo kemur margvíslegur vandi, er leiðir af þessu frumv., margs konar takmörk, er erfitt verður að greina. Hver eru takmörkin svo menn fái dýrtíðarstyrk? Hver eru efnatakmörkin til þess, að lagður verði á menn dýrtíðarskattur? Hver eru takmörkin fyrir dýrtíðarhjálpinni, og hver eru takmörkin fyrir sveitarstyrknum ?

Jeg hygg, að af öllu þessu stafaði talsverður vandi.

Þetta er ekki sveitarstyrkur, en þó finnur löggjöfin, að það er sveitarstyrkur, og setur það nærfelt á bekk með honum.

Á þessi styrkur að hafa áhrif á sveitfestistímann? Á þessi styrkur að teljast með, þegar verið er að reikna tímann? (Ráðherra: Vitanlega!). Ef maður hefir verið 9 ár í sömu sveitinni og fær á 10. árinu dýrtíðarstyrk, hvar er hann þá sveitlægur? Þetta hefði þurft að taka skýrt fram í lögunum, alveg eins og það er tekið fram í fátækralögunum, hvernig skuli telja víst á spítala eða skóla.

Hjer er að eins um heimildarlög að ræða, er sveitarstjórnirnar ráða sjálfar hvort þær nota eða ekki, en jeg verð að taka undir með hv. 4. kgk. þm. (B. Þ.) um, að það er mikill vandi fyrir sveitarfjelögin, að fara með lög þessi.

Við, sem gamlir erum, verðum að játa það, að hversu sanngjarnlega sem við höfum viljað jafna niður útsvörunum, þá hafa þau aldrei verið fullkomlega rjettlát; okkur mönnum skjátlast allt af meira og; minna.

Jeg hefði ekki horft í það, að verða með þessu, þótt sveitarstjórnirnar fengju ámæli; það er það venjulega, og allir svo vanir því; en jeg get það ekki af því, að jeg tel að höfuðstefna frumv. sje röng; það eigi að vera landshjálp sem veitt sje.