31.08.1915
Efri deild: 47. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 808 í B-deild Alþingistíðinda. (942)

132. mál, tollar fyrir Ísland

Flutnm. (Guðm. Björnson):

Herra: forseti! Núna ekki alls fyrir löngu átti jeg tal við einn erfiðismanninn hjerna í Rvík — einn af mörgum — og talið barst að dýrtíðinni.

Honum varð þetta að orði: „Drottinn minn dýri — hvernig eigum við aumingjarnir að fara að lifa í vetur?“

Síðan nýja bjargráðanefndin var kosin, hefir ráðherra kvatt okkur á fund á hverjum morgni. Það hefir verið fyrsta verkið hans og okkar nefndarmanna á hverjum degi að íhuga, hvaða ráð muni líklegust til að afstýra því, að mikill fjöldi manna fari á vonarvöl í vetur, og jafnframt sjá fyrir því, að landsjóður geti staðist óvænt útgjöld, sem fyrir geta komið, varna því að hann verði gjaldþrota.

Jeg hefi orðið þess var, að ýmsir menn gjöra lítið úr dýrtíðinni og láta sjer fátt um finnast tekjuhallann, þó að hann nemi nú alt að því hálfri miljón króna.

Þessi rósemi manna kemur eflaust til af því, að við höfum talað of mikið um dýrtíðina, en gjört of lítið að því, að reikna og rannsaka; og líkt er um hitt: Við erum að lofa fje úr landssjóði, langt fram yfir tekjuáætlun, og segjum, eins og vant er að tekjurnar muni fara fram úr áætlun, og bregðist það, þá megi taka lán. Þetta segjum við, en gáum ekki að því, að nú er heimurinn í því uppnámi, að allar áætlanir eru lausar ágiskanir, sem hæglega geta brugðist, og svo látum við þar á ofan eins og við vitum ekki, að á næstu misserum má alls ekki vænta þess, að við getum fengið fje að láni í öðrum löndum og þá er ekki í önnur lánahús að venda fyrir landssjóðinn en bankana okkar; en það. er auðsætt, að þeir geta ekki lánað landssjóði fé, án þess að stórskaða atvinnuvegi landsins, því að þá verða þeir að neita atvinnurekendum um lánsfje í stórum stíl.

Landsstjórninni og bjargráðanefndinni er orðið ljóst, að þetta má ekki svo til ganga.

Þess. vegna er komið fram í háttv. Nd. frv. um útflutningsgjald á þeim afurðum landsins, sem mest hafa stigið í verði, og þó aðallega á matvöru, sem seld er út úr landinu. Þar er að ræða um tekjuauka, sem getur numið um eða yfir 800,000 kr.

Mjer er óhætt að segja, að öll bjargráðanefndin telur þess konar álögur óhjákvæmilegar.

En því er ekki að leyna, að við nefndarmenn höfum engum heitum bundist um það, að fylgja því frv. óbreyttu.

Þvert á móti. Við erum sumir, jeg og aðrir, alveg mótfallnir vigtartolli á útfluttri vöru; við teljum verðtoll (hundraðsgjald) rjettmætan, og þá vitanlega mikið álitamál, hvað, sá verðtollur eigi að vera hár og hve nær hann eigi að ganga í gildi, bara um að gjöra, að upp úr honum hafist álitlegur tekjuauki fyrir landssjóð.

Herra forseti!

Það má vera, að mönnum þyki undarlegt, að jeg skuli þá leyfa mjer að bera upp í þessari háttv. deild 2 frv., sem fara í öfuga átt við þetta frv. meðnefndarmanna minna í Nd.

Þessi frv. mín miða bæði að því, að rýra tekjur landssjóðs um eða yfir 300,000 kr. á ári.

Hvað veldur? Hvað gengur mjer til? Dýrtíðin veldur, og mjer gengur það til, að ljetta eitthvað þyngstu sköttunum af þeim, sem erfiðast eiga, þeim, sem bíða stórbaga af dýrtíðinni, en hafa engan hagnað af henni.

Jeg hef tekið mjer fyrir hendur að rannsaka dýrtíðina.

Þegar jeg fór að leita fyrir mjer hjá kaupmönnum, varð jeg þess var, að hagstofustjórinn okkar hafði safnað skýrslum um verðhækkun á allskonar nauðsynjavöru, síðan ófriðurinn hófst. Hann hefir nú látið mjer í tje skrá yfir verð á nauðsynjavörum á miðju sumri 1914 og aftur nú um miðsumarsskeiðið. Jeg hefi svo reiknað hækkunina, og ætla að nefna nokkur dæmi:

Útlendar vörur.

Verðhækkun.

Rúgmjöl 74 pct. .

Hveiti 46 —

Haframjöl 44 —

Kandís 60 —

Hvítasykur 26 —

Smjörlíki 15 —

Matarsalt 25 —

Steinolía 11 —

Steinkol 78 —

Innlendar vörur.

Verðhækkun.

Nautakjöt 20 pct.

Kindakjöt c. 80 —

Nýr fiskur 14 —

Saltfiskur 12½ pct.

Trosfiskur 54 pet.

Þá ekki því að gleyma, að hjer í Rvík, ef ekki víðar í kaupstöðum, hefir húsaleiga hækkað stórum á síðustu misserum.

Í þessari skýrslu er farið eftir söluverði, meðalverði, hjer í Rvík 1914–915. Það leynir sjer því ekki, að hjer er dýrtíð, mikil dýrtíð, svo mikil, að óhætt má segja, að verðhækkunin á öllum helstu lífsnauðsynjum nemi 40–50 pct. til uppjafnaðar.

Herra forseti! Mjer er sagt, að einn sveitabóndi hafi nýlega kveðið upp úr um hagi sveitamanna, hrósað happi yfir dýrtíðinni og óskað þess, að ófriðurinn yrði sem lengstur.

Honum er vorkunn. Það er víst, að þótt aðfengnar vörur hafi hækkað stórum í verði, þá hafa þó landbúnaðarafurðir hækkað miklu meir að sínu leyti, svo að bændur hafa á þessu ári stórhagnað af dýrtíðinni.

Sjávarafurðir hafa einnig hækkað stórum í verði, svo að útvegsmenn hafa yfirleitt miklum gróða að fagna.

En hverjir verða þá fyrir skakkafallinu? Það er augljós hlutur. Það eru þeir allir, sem búlausir eru, ekkert hafa að selja, annað en vinnu sína; það eru allir. verkamenn, iðnaðarmenn og allir starfsmenn, sem vinna fyrir daglaunum eða mánaðarkaupi.

Þeir menn allir, sem kaupa allar sínar nauðsynjar, bæði útlendar og innlendar, miklu hærra verði en vant er, — þeir hafa einberan skaða af dýrtíðinni, en engan hagnað.

Að vísu hafa verkamenn fengið kaup sitt hækkað, allflestir, svo að nemur 10– 25 pct., en dýrtíðin nemur fyrir þá 40– 50 pct. Og það er víst, að fjöldi lágtlaunaðra starfsmanna hefur enn alls enga uppbót fengið. Þeir verða verst úti.

Þessu verður ekki neitað. Menn eru tilneyddur að játa því, hljóta að játa því. Það er erfitt að segja í tölum, hversu mikill hluti landsmanna bíður þennan stórbaga, af dýrtíðinni. Í fólkstalinu 1910 er talið, að 6031 maður lifi á handverki og iðnaði, en í daglaunamannastjettinni eru taldir 4186. Þetta var 1910. Það er óefað lágt reiknað, ef gjört er ráð fyrir, að einn fimti þjóðarinnar hafi mjög lítinn hagnað af dýrtíðinni að neinu leyti, en bíði mikinn hnekki.

Þetta má til að laga, að einhverju leyti. Og í því skyni ber jeg fram þessi tolllækkunarfrumvörp. Það gjöri jeg upp á mín eigin býti, en ekki fyrir hönd bjargráðanefndarinnar.

Kaffitollurinn nemur nú um það bil 1 kr. 60 au, á mann, sykurtollurinn 3 kr. 72 au. og kornvörugjaldið 22 aurum, samtals 5 kr. 54 au. á hvert mannsbarn. Þar við bætist svo aðflutningsgjaldið af öllum öðrum aðfengnum nauðsynjavörum, sem allir þurfa á að halda, vefnaðarvöru, steinolíu o. s. frv.

Sannleikurinn er sá — sorglegur sannleikur, — að mestallar tekjur landssjóðs eru nefskattur, sem lenda jafnt á tómthúsmönnum og stórbændum, daglaunamönnum og útgjörðarmönuum — því allir þurfa jafn mikið að eta, og erfiðismennirnir reyndar mest, og þeir slíta líka mestum fatnaðinum.

Þetta er ójöfnuður, það er ranglæti, óhafandi ranglæti.

Því hafa menn játað, margoft, líka hjer á Alþingi — það vantar ekki. En þó hefir þessi ójöfnuður verið aukinn á hverju þingi að heita má — tollarnir smáhækkaðir, og loks leitt í lög allsherjar aðflutningsgjald.

Það hefur verið talað um að hækka beinu skattana rjettlátustu skattana, ósköpin öll verið um það talað, utan. þings og innan — það vantar ekki. En þar við hefur setið, — ekkert verið gjört í þá átt — alls ekkert — það vantar; það vantar gjörsamlega, að eitthvað sje gjört í rjetta átt í skattamálum landsins.

Það er skemst á að minnast, hvernig fór um skattafrumvarp stjórnarinnar í hetteðfyrra hjer á þingi.

Herra forseti! Nú vona jeg, að allir skilji, hvert þau stefna, þessi nýstárlegu frumvörp.

Frumvarpið í neðri deild fer fram á útflutningsgjald af afurðum landbænda og útvegsmanna. Það fer í rjetta átt, því að þær álögur verða þyngstar á þeim, sem minst hafa milli handa. Þau gjöld verða eins konar beinir skattar, þeirra ígildi.

Og þessi frumvörp mín, þau fara líka í rjetta átt, þau miða að því. að ljetta að stórum mun þyngsta nefskattinn, sem hvílir á allri alþýðu manna — fátækri alþýðu. Sykurtollurinn er nú 15 aurar af tvípundi, eða rúml. 3 kr. 70 aur. á mann. Í frumvarpi mínu á þingskjali 641 er hann færður niður 5 aura af tvípundi; hann verður þá ekki nema 1 kr. 25 aur. á mann, og í því sama frumv. er farið fram á, að lækka kaffitollinn um helming. Hann er nú 1 kr. 60 aur. á mann.

Að leggja toll á aðflutta kornvöru, hjer í kornlausu landi, það er í mínum augum alveg óhafandi; gjaldið er lágt, — það er satt, — það er 10 aurar af 50 tvípundum, eða 22 aurar á hvert mannsbarn, því kornþörfin er um 108 tvípund á mann. En þess konar gjöld, aðflutningsgjöldin, eru eins og snakkarnir, sem hlupu undir ærnar í gamla daga — þau vaxa, þau tútna hröðum fetum, þau eru blóðsugur.

Hvað sem annars má segja um vörutollin okkar nýja, þá er það víst, að kornvörur áttu ekki og máttu ekki þar við koma.

Og hvað sem hver segir, herra forseti, þá er það víst, að sykurtollur er hjer á landi í sykurlausi landi, alveg eins ranglátur, jafnóhafandi og korntollur, því sykur er holl og ódýr fæða fyrir allan almenning, engu síður en kornmaturinn.

Jeg stóð einn uppi á þingi 1905, og barðist þá á móti hækkum á sykurtollinum. Nú stend jeg aftur einn uppi og legg eindregið til, að sykurtollurinn verði lækkaður.

Þann toll ætti að afnema með öllu síðar meir — og það skal ekki standa á mjer; en jeg þykist vita, að ekki muni tjá að nefna slíkt að þessu sinni.

Herra forseti! Það er svo um allan heim, að margir eru fátækir en fáir ríkir. Og farsælastar eru þær þjóðir, sem eiga því að fagna, að öll alþýða manna, allur verkamannalýðurinn, hefir næga atvinnu og allar lífsnauðsynjar svo ódýrar, að hver tómthúsmaður getur unnið fyrir konu og börnum og komist vel af. —

Því verður nú ekki neitað — jú, því verður kann ske neitað, en það verður ekki hrakið, að þessi stefnubreyting í skattalöggjöf landsins er rjettlát, nauðsynleg og sjálfsögð — þetta tvent, að gera útfluttar lífsnauðsynjar að skattstofni, en lækka eða afnema tollana á aðfluttri matvöru.

Dýtíðin núna leiðir það í ljós svo áþreifanlega, hvað öll okkar tollalöggjöf er skökk og ranglát.

Fjárlagafrumv. er augljós vottur um tekjuþörf landssjóðs.

Það er vitanlega hægast að fara að gömlum sið, láta reka á reiðanum, í þeirri von, að það slampist af.

Og það er annað: Við segjum, að fæst orð hafi minsta ábyrgð. Og síðan þessi mikli ófriður hófst, og þjóðin lenti í öllum þeim vanda, sem af honum leiðir, þá er ekki um að villast; það er harla auðsætt, að hjer á Alþingi, bæði í fyrra og núna, hefir verið talsvert hik á mönnum, talsverð tregða, að eiga nokkuð verulega við mestu vandamál þjóðarinnar.

Það er skiljanlegt. Alt orkar tvímælis, þá er gjört er.

Og það er auðvitað, að við berum ábyrgðina á öllu því, sem við gjörum hjer á þingi.

En við berum líka, herra forseti, ábyrgð á því, sem við látum ógjört.

Jeg er mjög þakklátur háttv. deildarmönnum fyrir það, að þeir hafa leyft mjer að bera upp þetta frv. Jeg leyfi mjer þá að leggja það til, að skipuð verði fimm manna nefnd að lokinni þessari umr., til að íhuga þetta mál, og svo til ætlað, að hinu frv. mínu verði vísað til sömu nefndar, og þá líka þeim dýrtíðarmálum, sem kunna að berast hingað frá háttv. neðri deild.