31.08.1915
Efri deild: 47. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 819 í B-deild Alþingistíðinda. (945)

132. mál, tollar fyrir Ísland

Steingrímur Jónsson:

Jeg kann ekki við að segja ekkert um frv. þessi við 1. umr. Þau eru nýstárleg og merkileg, ekki síst fyrir þá sök, að þau koma í þinglok.

Það voru nokkur orð í ræðu háttv. 5. kgk. þm. (G. B.), sem jeg vil undirstrika, því að þau voru rjett.

Það hefir mikið verið talað um dýrtíð, eins og við hefðum aldrei haft dýrtíð áður. Við Íslendingar erum ekki minnugir. Árið 1892 steig rúgur um 80%, og var hann þá jafnvel enn þýðingar meiri vara en nú. Menn hafa líka gleymt dýrtíðinni, sem gekk yfir þetta land 1882–1888. Þá var harðæri, grasbrestur og ógengd í öllum hlutum, og allar afurðir lækkuðu tilfinnanlega í verði. Sú dýrtíð, sem við eigum nú við að búa, stafar af því, að peningar eru stöðugt fallandi í verði. Þetta hefir Alþingi ekki viljað viðurkenna, að peningar hafa fallið í verði með hverju ári. En þetta hefir þó alveg sjerstaklega átt sjer stað síðasta árið, og er það afleiðing ófriðarins mikla. Þetta er sú eiginlega dýrtíð fyrir þetta land og ekki annað. Þess vegna eru frv. þessi, sem nú eru fram komin, merkileg, jeg lít ekki sömu augum á þau og háttv. 6. kgk. þm. (J. Þ.). Þau standa í sambandi við peningaverðfallið. Þess vegna legg jeg mestu áherslu á þau, og vona, að nefnd sú, sem kosin verður til þess, að athuga þau, geti starfað í sambandi við nefndina í Nd., sem væntanlega verður skipuð í dýrtíðarfrumvarpinu. (Guðmundur Björnson: Á háttv. þm. við dýrtíðarfrumvarpið?). Jeg á við útflutningsgjaldsfrumvarpið. Jeg mun síðar koma að dýrtíðarfrumvarpinu.

Háttv. 5. kgk. þm. (G. B.) gat um, að sú stefna, sem ríkt hefði í okkar skattamálum, væri órjettlát og háskaleg. Það er sjerstaklega vegna þessara orða, að jeg stend upp. Jeg þakka honum fyrir þau orð, því að þau eru rjett og í tíma töluð. Við höfum undanfarin ár látið reka á reiðanum með allar áhyggjur út af fjármálunum, og afleiðingin hefir orðið sú, að við höfum lagt toll á nauðsynjavöru. Nú má það ekki svo til ganga lengur. Gildir þetta einkum um sykurtollinn; hann hefir nú verið stofntekjur landsins í 20 ár, Jeg hefi sannfærst um það betur og úr, að engin vara er nauðsynlegri en sykur, ekki einu sinni rúgmjöl. (Guðmundur Björnson: Rjett, alveg rjett). Því held jeg, að frv. sje orð í tíma talað. Jeg setti mig af þessum ástæðum mest á móti hækkun sykurtollsins á Alþingi 1907, og jeg tek vel lækkuninni, ekki vegna dýrtíðarinnar, heldur af því, að það er rjettlátt. Jeg vil leyfa mjer að benda á, að það er ávalt gott að líta til þess, sem gjörst hefir í fortíðinni, þegar maður ætlar að taka ákvarðanir fyrir framtíðina. Þegar Englendingar höfðu afnumið hjá sjer kornlögin frægu 1845, afnámu þeir einnig sykurtollinn. Þeir vissu, að enginn skaðlegri skattur fyrir almenning var til. Þetta hefir áhrif á mitt atkvæði. Þetta er þess vert, að það sje tekið til yfirvegunar. Sykurinn er nauðsynjavara, en með kaffitollinn stendur öðru vísi á, enda þótt kaffið sje líka nauðsynjavara.

Þá er að minnast á þá stefnubreytingu, sem háttv. 5. kgk. þm. (G. B.) vildi taka. í skattamálunum. Hann vildi ekki leggja gjöld á aðfluttu vöruna, en mjer skyldist svo, sem honum þætti vegurinn burt frá því ljettur; það þyrfti ekki annað en að velta þeim yfir á útfluttu vöruna. Þetta held jeg að sje vanhugsað, og því þurfi að athuga það betur. Jeg sje ekki annað en að þetta sje töluverður vandi, eins og háttv. 2. þm. Skagf. (J. B.) tók fram. Jeg sje ekki, að það sje auðvelt, að taka tollinn af innfluttu vörunum og velta honum yfir á útfluttu vörurnar. Eitt er rjett hjá háttv. 5. kgk. þm. (G. B), og það skal jeg viðurkenna. Ef nokkur meining á að vera í þessum útflutningstolli, þá verður hann að vera verðtollur. En jeg vil bæta því við, að hann má aldrei vera hár, því að annars getur hann heft framleiðsluna, eins og háttv. þm. Skagf. benti á. Jeg hefi hugsað mikið um útflutningsgjald, og aldrei getað sjeð, að það gæti gefið landssjóði verulegar tekjur, nema sem alment verslunargjald á alla útflutta vöru. Álagningin yrði þá að fara eftir því, sem nauðsynjarnar segðu til; það væri gefið á vald almenningi. Þetta held jeg að sje vegurinn. Það næst besta er verðskatturinn, en hann má aldrei vera hár, má ekki vera „konfiskation“. Það má aldrei koma fyrir, að lagður sje hár skattur á nauðsynjavöru. Menn hafa ef til vill tekið eftir því, að tollurinn á sykri hefir stundum verið 75% af innkaupsverðinu. Það hefir komið fyrir, að pundið hefir kostað 10–11 aura í innkaupi, en tollurinn hefir verið 7½ eyrir.

Jeg vil geta þess, að jeg get ekki verið á sama máli og háttv. 6. kgk. þm. (J. Þ.), að hætta sje á, að það sem dregið er af tollinum, lendi í vösum kaupmanna. Til þess er of mikil samkepni milli þeirra, er versla með kaffi og sykur. Hjer í Reykjavík t. d. er ágóðinn af þeirri vöru mjög lítill; en út um land, þar sem samkepnin er ekki eins mikil, kann hann að vera ofurlítið hærri. Og sama gildir út um land og í Reykjavík, að verslunarskuldafarginu er að miklu leyti ljett af.

Jeg skal ekki fjölyrða meir um þetta mál. Mjer þykir það svo merkilegt og nýstárlegt, að jeg vil láta íhuga það og rökræða.