02.09.1915
Efri deild: 49. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 826 í B-deild Alþingistíðinda. (953)

81. mál, fiskveiðar á opnum skipum

Framsm. (Karl Einarsson) :

Jeg bjóst við, að háttv. 1. kgk. þm. (E. B.) mundi tala í þessa átt. Jeg vissi áður, að hann er yfirleitt mótfallinn heimildum til allra slíkra samþykta, og það get jeg skilið. En þess er að gæta, að hjer stendur alveg sjerstaklega á. Eyjarnar liggja úti í rúmsjó, og þegar fiskveiðar þaðan eru stundaðar um hávetur, þá er eigi furða, þótt menn vilji reisa einhverjar skorður við gálausri sjósókn. Fiskveiðasamþykt Vestmannaeyinga er alls ekki ófrjálsleg, og gengur aðallega í þá átt, að tryggja það, að menn fari sjer ekki að voða, nje spilli veiðarfærum sínum. Jeg hefi heyrt sjómenn í Vestmannaeyjum fullyrða, að ómögulegt væri að stunda þar sjó, ef slík samþykt væri ekki. Jeg vil því vona, að háttv. deild samþykki frv., enda er hjer ekki freklega í málið farið.