24.07.1915
Efri deild: 15. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 827 í B-deild Alþingistíðinda. (958)

38. mál, sóknargjöld

Flutnm. (Hákon Kristófersson):

Jeg skal ekki þreyta menn með löngu máli að þessu sinni. Það, sem fyrir mjer vakir með þessu frv., er það, að ósanngjarnt og óheppilegt er, að ellihrumir menn sjeu látnir gjalda þetta gjald, þótt lágt sje, eins og þeir verða að gjöra samkvæmt núgildandi lögum. Jeg hefi miðað aldurinn við 60 ár, því sá aldur er tiltekinn í lögunum um ellistyrktarsjóði. Jeg býst við, að því verði slegið fram, að þetta sje talsverður tekjumissir fyrir landssjóð, og er það að vísu satt. En það er kunnugt, að hjer í deildinni hafa komið fram ýms frv., sem tekjumissi hafa haft í för með sjer, og þó þau hafi, ef til vill, sum fjallað um meiri framtíðarspursmál, þá hafa þau naumast verið sanngjarnari en þetta. Á meðan að kirkjan er óaðskilin frá ríkinu, þá er sjálfsagt, að reyna að halda henni uppi, án þess að leita til ellihrumra gamalmenna, til þess að fá fje þeirra manna, sem ef til vill liggja í kör, og yfirleitt geta lítil not haft af presti og kirkju. Eins og sjá má af frv., hefi jeg gjört ráð fyrir því, að þeim sem útsvar greiddu, þó yfir 60 ára væru, bæri að gjalda hið lögákveðna gjald til kirkju og prestslaunasjóðs. Tilgangur minn með frv. er að eins sá, að undan gjaldi þessu sjeu þegin öll fjelaus gamalmenni. Því jafnaðarlegast munu það vera fjelausir menn, sem ekkert útsvar er gjört, eftir því sem þarfir sveitarsjóðanna eru orðnar miklar nú, og fara sífelt vaxandi.

Jeg segi ekki, að þetta frv. sje sjerstaklega vel hugsað, en í því felst rjettlæti, og jeg vona, að það geti orðið til þess, að ýta undir mjer færari menn, til þess að athuga málið.

Það er öllum ljóst, hvað í frv. felst, og að þetta er nokkur tekjumissir, en mjer finst ekki ástæða til að fjölyrða um málið, þar sem þetta er 1. umr. En jeg leyfi mjer að gjöra það að tillögu minni, að kosin verði þriggja manna nefnd í málið, að þessari umr. lokinni.