07.08.1915
Efri deild: 26. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 829 í B-deild Alþingistíðinda. (962)

84. mál, tollalög

Flutnm. (Magnús Pjetursson); Það er ekki stórt á pappírnum frv., sem jeg kem hjer fram með. En þó hefi jeg þegar orðið þess var, að því muni ekki standa „beinn byrr undir báða vængi“ hjer út úr deildinni.

Jeg býst við, að allir kannist við, að það er tvent, sem menn hafa ætlast til að áfengistollurinn gjörði; fyrst er það, að takmarka áfengisneytslu í landinu, og hitt, að gefa tekjur í landssjóð, en hvorttveggja þetta setti nú að vera úr sögunni. Víninu er með lögum útrýmt úr landinu, og í stað áfengistollanna er nú kominn nýr tollur, vörutollurinn. Og þó er áfengistollur enn þá hjer á landi. En þá verður að athuga, hvort hann er sanngjarn, og hvar hann kemur niður.

En nú er því svo farið, að tollur þessi kemur mest á áfengi, sem notað er í meðul ella sem meðul. Landssjóður á því að hafa tekjur af sjúklingum. Þetta finst mjer rangt, og algjörlega gagnstætt stefnu tolllaga, því það hefir verið stefnan og venjan, að fyrst sje lagður tollur á munaðarvöru, en síðast á nauðsynjavöru. Og hvað á að teljast nauðsynjavara, ef það eru ekki læknislyf ?

Mönnum gæti dottið í hug, af því að læknir ber fram frv. þetta, að það sje af eigingirni, eða hagsmunavon fyrir hann og stjettina, en það er rangt. Læknar selja lyf sín eftir taxta, sem landlæknir semur árlega handa þeim, og er þar gjört ráð fyrir ágóða þeim, er þeim er ætlaður af sölunni. Ágóðinn verður því hinn sami af lyfjasölunni, hvort sem verð lyfjanna er hátt eða lágt.

Hitt dylst engum, hversu hróplegt ranglæti það er, að leggja skatt á sjúklinga — láta landssjóð græða á því, að menn sýkist. Það er þó sannarlega sjaldnast hægt að segja, að gjaldþol manna aukist við veikindi og sjúkralegur. Jeg hefi átt tal um þetta við menn, og mjer hefir verið sagt, að löggjafarvaldinu hefði að eins láðst, að fella þetta atriði úr lögunum, þegar aðflutningsbannið gekk í gildi. Tekjumissir er það að vísu, ef þetta er felt burtu, en þær tekjur eru rangfengnar.

Jeg fjölyrði ekki meira um þetta í bráð, en óska að háttv. deild sýni frv. þá kurteisi, að minsta kosti, að kjósa þriggja manna nefnd, til þess að athuga það, og leyfi því til 2. umr.