21.08.1915
Efri deild: 39. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í B-deild Alþingistíðinda. (97)

56. mál, fjáraukalög 1914 og 1915

Framsögum. (Magn. Pjetursson):

Jeg hefi ekki neitt umboð til þess, að lýsa skoðunum nefndarinnar á brtt. þeim, sem komið hafa fram um eftirlaun Skúla Thoroddsen. En fyrir sjálfs mín hönd vil jeg taka það fram, að jeg get ekki fallist. á brtt. hv. 6. kgk. (J. Þ.). Mjer virðist eitt af tvennu liggja fyrir, annaðhvort að greiða Skúla Thoroddsen alla fúlguna, eða þá að borga honum framvegis fulla vexti af henni, umfram rjett eftirlaun. Jeg get ekki heldur fallist á það, sem hv. 2. kgk. (Stgr. J.) sagði, því að mjer virðist Sk. Thoroddsen hafa fulla rjettarkröfu til þessa fjár, þó að honum sje ef til vill nokkuð um að kenna, að þetta hefir ekki verið fyrr leiðrjett. Jeg hallast því einna helst að brtt. hv. þm. Seyðf. (K. F.), og mun greiða atkv. með henni.