22.07.1915
Efri deild: 13. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 856 í B-deild Alþingistíðinda. (979)

20. mál, stjórnarskrármálið

Steingrímur Jónsson :

Jeg vil leyfa mjer með nokkrum orðum að gjöra grein fyrir afstöðu vorri Heimastjórnarmanna, til þingsályktunartillögunnar á þgskj. 41. Jeg: vil byrja með því, að taka fram, að við Heimastjórnarmenn erum ánægðir yfir að stjórnarskrárfrumvarp það, sem aukaþingið 1914 afgreiddi, hefir nú verið staðfest af konungi. Er það fyrst og fremst af því, sem allir viðurkenna, að í stjórnarskipunarlögum þessum felast ýmsar allmikilsverðar rjettarbætur, og sumar þeirra bráðnauðsynlegar. Að vísu er það svo, að ýmsir menn hjer og hvar um landið eru ekki ánægðir með hvernig að lokum var ráðið fram úr einstökum atriðum, en það dregur ekki úr fögnuðinum yfir staðfestingu stjórnarskrárinnar frá 19. júní þ. á.

Það er öllum ljóst, að eins víðtæk endurskoðun á stjórnarskránni og gjörð var með þessum stjórnarskipunarlögum gat ekki náð fram að ganga, nema með því að. allir flokkar sýndu tilhliðrunarsemi. Á þingunum 1911 og 1913 var unnið að því, að ná samkomulagi um þetta mál og það tókst. Hygg jeg mjer sje óhætt að fullyrða, að þjóðin öll, eða því sem næst öll, hafi verið mjög ánægð með þetta samkomulag þingmanna og úrslit málsins. Þetta sýndu kosningarnar 1912 og 1914

Það er öllum kunnugt, að síðastliðin 4 ár hefir þetta stjórnarskrárþref tekið allan áhuga og alla starfskrafta þeirra manna, sem við stjórnmál fást. Það er ekki ofmælt þótt jeg segi, að til þess hafi verið. varið tveim reglulegum þingum, 1911 og 1913, og tveimur aukaþingum 1912 og 1914.

Tvennar kosningar til Alþingis hafa farið fram, eingöngu vegna þessa máls. Hefir allt þetta kostað mikið erfiði góðra manna og stór fje.

Það væri mjög illa farið, ef öll þessi vinna og allur þessi kostnaður hefði verið fyrir gíg, og við hefðum nú staðið í sömu sporum og fyrir þing 1911. Og jeg leyfi mjer að fullyrða, að mjög mikill meiri hluti allra íslenskra kjósenda, hafi í vetur hugsað til þess með óhug og skelfingu, að stjórnarskráin mundi ekki verða staðfest fyrir þing. Þá er það, að við Heimastjórnarmenn, og jeg vænti að við höfum þar fylgi allra hugsandi manna í landinu, viljum, þegar þetta þref er frá hendi, að þingið snúi sjer óskift að þeim málum, er nú hafa verið lögð á hilluna. Og þau mál eru mörg, er allir landsmenn telja nauðsynlegt að verði farið að hugsa um. Nægir að benda á skattamálin og samgöngumálin.

Í vetur sýndist málið komið í mikla tvísýnu. Það virtist svo, að stjórnarskráin mundi ekki ná staðfestingu hans hátignar konungsins, og allt málið væri ónýtt. En sem betur fór, þá rjeðst fram úr þessu á þann hátt, að stjórnarskráin var staðfest 19. f. m.

Við Heimastjórnarmenn lítum svo á, að ekki sje um neinn rjettindamissi að ræða við það, sem fram fór í ríkisráði 19. f. m. Erum vjer þakklátir fyrir staðfestinguna, og fúsir til og ljúft að votta ráðherra þakklæti okkar, með því að samþykkja þingsályktunartillögu þá, sem fyrir liggur. Í henni stendur, að við álítum fyrirvaranum fullnægt, og þau orð teljum við á fylstu rökum bygð.

Eins og þingmönnum er kunnugt, er það skoðun vor Heimastjórnarmanna, að uppburður sjermálanna fyrir konungi í ríkisráði, sje og eigi að vera íslenskt sjermál. Mjer og fleiri Heimastjórnarmönnum hefir verið skoðun þessi mjög töm síðan 1908, að sambandslagafrumvarpið

var á döfinni, því viðsemjendur okkar í Danmörku gengu inn á þá skoðun. Við lítum svo á, að það, sem gjörðist í ríkisráði 1913, sje langt frá að hafa komið í bága við þessa skoðun, heldur þvert á móti styrkir það vorn málstað, og að við höfum fengið viðurkenningu fyrir að uppburðurinn sje íslenskt sjermál. Það var yfirlýstur vilji konungs, staðfestur af ráðherra Íslands, og forsætisráðherra ljet honum ómótmælt. Þess vegna var engin knýjandi ástæða til að láta fyrirvarann fylgja með stjórnarskránni 1914, en eins og jeg þá tók fram, gat það ekki verið óheppilegt, að láta hann fylgja, sökum umtals þess, sem orðið hafði 1913 og 1914, en þá að eins sem yfirlýsingu og skýringu á því, hver væri skoðun Alþingis á málinu. Þessi var skoðun okkar í fyrra, og við reyndum, sem kunnugt er, að ná samkomulagi við andstæðinga okkar, sem þó tókst ekki. Að okkar dómi var því fyrirvarinn ekki nauðsynlegur, en í því yfirlýsingarformi, er við bárum fram, jafnvel heppilegur; en allt þar fram yfir var ónýtt, og gat enda orðið til þess, að fella málið. Að það hafi haft nokkra praktiska þýðingu, hefir ekki sýnt sig.

Þá kemur að því, er stjórnarskrárfrumvarpið var lagt fyrir konung 30. nóv. 1914. Við álítum, að það komi skýrt fram í ræðu konungs, að málið sje sjermál, — nákvæmlega sama skoðun og áður, nema ef til vill enn þá skýrar en í ríkisráði 1913, og forsætisráðherra Dana mótmælir því ekki, að svo sje.

Af þessu, sem hjer hefir verið sagt, er hinni háttv. deild vonandi ljóst, hvernig við Heimastjórnarmenn greiðum atkvæði.

Við greiðum atkv. með þingsályktunartill. á þgskj. 41, og lýsum ánægju okkar yfir staðfestingunni, og þökkum ráðherra fyrir afskifti hans af málinu.

En svo hefir komið fram rökstudd dagskrá í málinu, frá háttv. 2. þm. G.-K. (K. D.). Okkur Heimsstjórnarmönnum er nóg að segja það, að úr því að við viljum samþykkja þingsályktunartill., getum við ekki greitt henni atkvæði, og hygg jeg, að röksemdirnar í ræðu minni skýri það fullkomlega. Jeg get sagt fyrir mitt leyti, að það sem jeg hefi á móti dagskránni, er það, að hætt er við að hún gjöri þingið hlægilegt.

Jeg hvorki vil nje finn ástæðu til að deila við háttv. 2. þm. G: K. .(K. D.) út af ræðu hans. Þar er svo margt, sem á milli ber, að jeg hygg að við verðum seint á eitt sáttir, enda eru kenningar hans og skoðanir svo undraverðar, að jeg tæpast treysti mjer til að vinna bug á þeim. Býst líka við að hæstv. ráðherra svari.