22.07.1915
Efri deild: 13. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 885 í B-deild Alþingistíðinda. (984)

20. mál, stjórnarskrármálið

Karl Finnbogason:

Jeg leyfi mjer að vita það, sem hjer kom fyrir áðan, að gjörð var tilraun til að meina þeim að mæla, sem ekki höfðu tekið til máls, og að þeir, sem sjálfir höfðu talað, greiddu atkvæði slíkri tillögu. Þetta mál er svo vaxið, að sjerstök ástæða er til, að hver einstakur þingmaður lýsi afstöðu sinni til. þess, og því verra er að hamla því.

(Björn Þorláksson: Jeg vil skýra frá því, að jeg hjelt, að enginn hefði beðið um orðið, og greiddi því atkvæði með því, að umræðum um þetta mál væri hætt).

Jeg skal þó strax lofa því, að eyða ekki mörgum krónum af fje landsins til minna orða.

Hjer liggur fyrir þingsályktunartillaga og tvær dagskrár, sitt með hvorum hætti. Verkefnið er því allmargbreytt, og ekki úr vegi að athuga það nákvæmlega.

Jeg lít svo á þingsályktuna, að hún sje fram komin til að „draga sundur“ í deildinni. Sje ekki, að hún geti miðað að öðru en leiða í ljós, hverjir eru með stjórninni nú og hverjir móti. Líst mjer því sjálfsagt, að sem flestir hv. þingdm. ætti að eiga kost á að lýsa afstöðu sinni, og það vil jeg nú gjöra.

Fyrirvarinn margnefndi átti að vinna tvent, Fyrst og fremst að koma í veg fyrir, að vjer mistum nokkurn rjett, um leið og stjórnarskráin yrði staðfest, og í öðru lagi koma ekki í veg fyrir, að stjórnarskráin yrði staðfest. Sýnilega var örðugt að vinna þetta tvent í einu. Enda fer tvennum sögum um, hvernig það hafi tekist.

Með þetta tvent fyrir augum samþykti jeg fyrirvarann í fyrra, og vonaði, að vel gengi. Sú von var í fyrsta lagi bygð á því, að jeg vildi að vel gengi, og í öðru lagi á því, að þáverandi ráðherra ljet vel af viðtökum konungs og undirtektum, þegar hann talaði við hann um fyrirvarann í utanför sinni.

Ríkisráðsfundurinn 30. nóv. 1914 fór eins og kunnugt er. Eftir hann var jeg með öllu vonlaus um að stjórnarskráin yrði staðfest, og fyrirvaranum jafnframt fullnægt. Það vonleysi bygðist á orðum konungs á þeim fundi.

Mjer virtist það ganga drottinsvikum næst, að væna konung þess, eða vænta þess, að hann hyrfi frá orðum sínum; og mjer virtist það ganga landráðabrigslum næst, að væna nokkurn Íslending þess, að að hann gjörðist til þess, að fá stjórnarskrána staðfesta með þeim skilmálum, sem. þá voru fyrir hendi; og aðrir virtust ófáanlegir. Svo hófust utanstefnurnar, eða utanfarirnar. Jeg vænti einskis góðs af þeim; bjóst ekki við neinum árangri, því málið var þá í sömu skorðum og 30. nóv. 1914, og mennirnir hlutu að vinna að því á þeim grundvelli, sem konungur sagðist mundu halda því á, fyrst hann hafði lýst yfir því, að hann myndi ekki af honum víkja. Mjer kom þó ekki í hug að áfella þessa menn, þótt þeir færi á konungsfund. Taldi það sjálfsagða kurteisi við konung að taka boði hans. Hitt þótti mjer ekki sjálfsagt, að þeir legðu út í nein stórræði í stjórnarskrármálinu, þótt þeir kynni að tala um það við konung og aðra. Jeg vantreysti mönnunum í engu, og ljet því alt kyrt og afskiftalaust.

Svo komu þeir með tilboðin. (Ráðherra: Tillögur, en ekki tilboð). Jæja, tillögurnar þá. Mjer er sama, hvaða nafni þetta nefnist. En það var farið svo ákaflega leynt með þessar tillögur. Það var mjer ekki sama. Yfir því varð jeg óánægður, því jeg áleit, að allir þingmenn að minsta kosti, og helst öll þjóðin, ætti heimtingu á að fá að vita; hvað um var að vera, og jeg get ekki fyllilega enn losað mig við þessa óánægju, þótt jeg hafi fundið því margar og miklar málsbætur. Jeg sá það strax, er jeg sá tillögurnar, að formið var í eðli sínu leyndarmál, enda fór jeg svo með þær, sem jeg vænti og að sje viðurkent.

Þegar er jeg sá tillögurnar, þá litust mjer þær miklu betra en jeg bjóst við, og jeg gat ekki betur sjeð, en að þær stæðu á öðrum og betra grundvelli en áður hafði verið, þó mjer hins vegar engan veginn líkuðu þær. Jeg áleit því hyggilegast, að þingmenn gjörðu við þær breytingartillögur sínar og athugasemdir með stillingu og gætni, svo þeir spiltu ekki fyrir málinu. En alls ekki að ónýta þær að óreyndu. Þetta álít jeg að þingmenn gjörðu best með því, að koma saman á aukaþingi, og ráða þar ráðum sínum.

Það var ljóst, að tillögurnar þurfti að ræða; það þurfti að ráðgast um þær; annars var meiningarlaust að sýna nokkrum þingmanni þær. Hefðu þrímenningarnir verið strax sannfærðir um, að með því að taka skilmálum þeim, er þeir áttu kost á, væri fyrirvaranum fullnægt út í æsar þá var sjálfsagt af þeim að fá stjórnarskrána staðfesta umsvifalaust. En það hafa þeir ekki verið, eins og ekki var von. Og þess vegna var ástæða til að ræða um málið og bera það undir þingmenn, hvort þeir vildu að nokkru víkja frá ákvæðum síðasta Alþingis eða ekki. En til þess þurftu allir þingmenn að fjalla um málið, og það saman, en ekki hver í sínu horni. Svona hefi jeg litið á þetta.

Enn fremur taldi jeg það óheppilegt, að stjórnarskifti yrðu á milli þinga, ekki vegna þess, að jeg vildi ekki styðja hvern sem væriaf þessum þremur, sem utan fóru,. heldur vegna þess, að jeg tel hættulegt fordæmi skapað með því, að ráðherraskifti verði með þeim hætti, sem þau urðu nú. Því þó slíkt geti gefist vel í eitt skifti, getur það gefist illa í annað skifti. Það hlýtur að styrkja konugsvaldið, en veikja þingræðið. Og til þess er ekki leikurgjörandi. Jeg hefði þess vegna talið heppilegt, þó það hefði kostað nokkrar krónur, að kallað hefði verið saman örstutt aukaþing — þótt það jafnvel hefði verið haldið fyrir lokuðum dyrum, — svo að þingmenn gætu í sameiningu rætt um tilboðin og komið sjer saman um ráðherra, í stað þess, að gjöra það hver í sínu horni. Mjer þykir miður farið, að svo varð ekki, þó jeg viðurkenni, að þar sjeu einnig miklar málsbætur.

Nú er stjórnarskráin staðfest. Fyrirvarinn hefir því ekki komið í veg fyrir það. Slíkt orkar ekki tvímælis.

En höfum vjer þá mist nokkurn rjett, og hefir fyrirvaranum verið fullnægt? Þetta orkar tvímælis. Jeg álít að vjer höfum engan rjett mist. En hitt virðist mjer jafn víst, að fyrirvaranum sje ekki fullnægt.

Allt er í sömu skorðum og áður var. Ráðherrar vorir hafa haldið fram rjetti vorum, í anda þingsins, Danir hafa ótvírætt vjefengt rjettinn. Og konungur hefir ekki fyllilega viðurkent okkur hann, en neitar ekki heldur, að vjer eigum hann.

Beina viðurkenningu konungs get jeg hvergi fundið í því, sem gjörðist á ríkisráðsfundi 19. júní 1915, hvað þá 30, nóv. 1914. Og jeg hygg, að hún sje ekki auðfundin.

En fyrirvarinn heimtaði meira en fengið er. Aðalkrafa hans var sú, að konungsvaldið viðurkendi umrueddan rjett vorn. Þetta var skýrt tekið fram af framsögumanni stjórnarskrárnefndarinnar í neðri deild 1914, hæstv. núverandi ráðherra. Fyrrverandi ráðherra, Sigurður Eggerz, hjelt þessu fast fram á ríkisráðsfundi 30. nóv. 1914, og meiri hluti þingmanna (23) gaf út skriflega yfirlýsingu um það, að hann hefði farið þar rjett með málið.

Hjer er því engum blöðum um að fletta, hvað sem nú er sagt eða sagt verður. En þótt vjer höfum ekki fengið fullnægt þessari kröfu, tel jeg rjetti vorum borgið. En auðvitað hefir ekkert áunnist, eins og til var stofnað.

Og þar sem staðfesting stjórnarskrárinnar er mjer mikið ánægjuefni, tel jeg mega una við úrslit málsins, eina og þau eru orðin, og rjett að drepa niður deilum um það. Mun það heillavænlegast landi og lýð, að svo komnu.

Að svo mæltu þarf jeg ekki að fjölyrða um þingsályktunartillöguna. Hún telur fyrirvaranum fullnægt og lýsir óblandinni ánægju yfir staðfestingu stjórnarskrárinnar. Jeg tel fyrirvaranum ekki fullnægt, og er óánægður með aðdrög stjórnarskrárstaðfestingarinnar. Hlýt því að greiða atkvæði móti þingsályktunartill.

Móti dagskrá háttv. 2. þm. G.-K. (K. D.) mun jeg ekki greiða atkvæði, því ekki sje jeg, að neitt sje á móti því, að undirstrika það, að þingið haldi fast við sína fyrri stefnu í þessu máli, meðan það þykist halda henni.

Og með dagskrá háttv. þm. Vestm. (K. E.) get jeg vel greitt atkvæði, því þar er gjörð tilraun til að taka höndum saman við fyrrverandi og núverandi ráðherra í málinu og styrkja mótmæli þeirra gegn skoðun Dana á uppburði sjermálanna. Sje jeg ekki annað en að háttv. tillögumenn, og þeir aðrir, er vilja styðja núverandi hæstv. ráðherra, en jafnframt halda fast við rjett vorn, geti greitt henni atkvæði, og ættu að gjöra það.

Þó vil jeg taka það fram, að atkvæði mitt gildir ekki skilyrðislaust ánægjuyfirlýsinguna, samkvæmt því, er jeg hefi áður tekið fram. Og um afstöðu mína til núverandi hæstv. ráðherra, er það eitt að segja, að jeg mun ekki bregða fyrir hann fæti á þessu þingi fyrir það, sem orðið er.