22.07.1915
Efri deild: 13. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 891 í B-deild Alþingistíðinda. (986)

20. mál, stjórnarskrármálið

Björn Þorláksson :

Það eru að eins örfá orð, er jeg vildi segja.

Jeg var svo óheppinn, að jeg heyrði ekki alt, sem háttv. þm. Vestm. (K. E.) sagði um dagskrá sína, en mjer hefir sagt verið, að hann hafi sagt, að það væri vitanlega ósatt, að jeg hefði sjeð þessa dagskrá fyrir tveimur dögum síðan. Mjer þykir það hart, þar sem jeg hefi hjer eftirrit af dagskrá hans í hendinni; og auk þess vill svo til, að jeg get nefnt votta að því, að jeg skýri rjett frá, því svo vildi til, að háttv. 6. kgk. þm. (J. Þ.) var viðstaddur, er mjer var sýnd hún. Jeg hygg því, að jeg þurfi ekki að bera neinn kinnroða fyrir ummæli mín. En, eins og jeg sagði áðan, þá hefir traustinu verið kipt burtu úr dagskránni.

Háttv. þm. Vestm. (K. E.) þótti það einkennilegt, að jeg skyldi ekki skilja dagskrá hans, en jeg verð að játa það, að jeg veit ekki enn hvað meint er með henni, enda er hún bæði loðin og óskýr. Jeg mintist áðan á orðalagið á henni, en jeg hefði getað kveðið harðar að orði, því jeg tel hana illa. og klaufalega orðaða, svo að hún er hin mesta ómynd og því tæpast samboðin virðingu þingsins eða prentandi sem þingskjal. Jeg vil þó taka það fram, að ef hann hefði tekið kjarnann úr dagskrá sinni og komið fram með hann sem breytingartillögu við þingsályktunartillöguna, þá hefði málið horft öðru vísi við.