22.07.1915
Efri deild: 13. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 892 í B-deild Alþingistíðinda. (988)

20. mál, stjórnarskrármálið

Ráðherra:

Háttv. 2. þm. G:-K. (K. D.) kom í ræðu sinni ekkert inn á efni málsins, og þarf jeg því ekki að svara honum löngu máli. Hann var eitthvað að bera saman árin 1903 og 1915, og sagði að þingmenn 1903 hefðu gjört það í góðri trú, en nú væru þeir mala fide, eða breyttu gegn betri vitund. En þetta er ekki rjett hjá háttv. þingmanni. Árið 1903 setti þingið ríkisráðsákvæðið í stjórnarskrána með fullri meðvitund um hvað bak við lá; til þess að sjá að þetta er rjett, þarf ekki annað en að líta í ástæðurnar fyrir stjórnarfrumvarpinu.

Háttv. sami þm. (K. D.) vildi hvorki lofa eða lasta birtinguna í Ingólfi. Jeg skil það fjarskalega vel; hann er mjer og öðrum mönnum sammála um birtinguna, hvert óhæfuverk hún hafi verið, en hjer eiga í hlut flokksmenn hans, sem hann vill ekki lasta. En til þess a,ð leiða athygli frá þessum illa verknaði flokksbræðra sinna, þá beindi hann þeirri fyrirspurn til mín, hvort það hefði skift nokkru máli, hvort þetta var birt viku fyrr eða síðar. Já, jeg get fullvissað háttv. þm. (K. D.) um, að það skifti miklu máli, hvort það var birt fyrir eða eftir staðfesting stjórnarskrárinnar.

Þá var þessi sami háttv. þm. (K. D.) að tala um það, að þingmenn hefðu átt að hafa rjett til að sjá tillögurnar, sem við þrír komum með. Þar til er því að svara, að þeir fengu að sjá þær, og þar á meðal háttv. þm. (K. D.) sjálfur, en hitt var gjört að skildaga, að þær yrðu ekki birtar, og því urðum við að lofa, og hið sama gjörðu þeir þingmenn, er fengu að sjá þær. Þetta er meira að segja viðurkent af þeim, er birtu þær; fyrir því liggur eigin játning þeirra og bókun. Háttv. þm. Dalamanna (B. J.) las upp bókunina í háttv. Nd. Jeg finn ekki ástæðu til, að þreyta lengur mál þetta að sinni.

Háttv. 2. þm. G:-K. (K. D.) gjörði mikið úr því, að dönsk blöð teldu, að Danir hefðu unnið mikinn sigur. Jeg. legg nú ekki mikið upp úr þessu; en auk þess eru þau ekki öll sammála þar um; sum þeirra

telja að Danir hafi gefið alt of mikið eftir. Jeg skal t. d. benda á einn stjórnmálamann, sem er mjög kunnur í Danmörku og eins talsvert kunnur hjer á landi, fyrverandi forsætisráðherra J. C. Christensen, er átelur stjórnina fyrir, að hún hafi gefið alt of mikið eftir.

Háttv. þm. Vestm. (K. E.) beindi til mín fyrirspurn um dagskrá sína, um það, hvort jeg hefði nokkuð á móti henni. Eins og háttv. þm. (K. E.) skýrði afstöðu sína til dagskrárinnar, og ef aðrir, er greiða henni atkvæði, skýra eins afstöðu sína, þá tel jeg hana ekki allfjarlæga þingsályktunartillögunni. En þó er miðbik dagskrárinnar orðað fyrir þá, er telja, að fyrirvaranum sje ekki fullnægt, en þó svo sje, hefir það lítil áhrif, ef allir þeir, er dagskránni greiða atkvæði, lýstu yfir hinu sama og háttv. þm. Vestm. (K. E.) og háttv. þm. Strand. (M. P.). En nú heyri jeg, að háttvirtur þm. Seyðf. (K. F.) ætlar líka að greiða atkv. með dagskrá þessari, og það einmitt af því, að hann telur, að fyrirvaranum sje ekki fullnægt, en hann slær varnagla við því, að það megi alls ekki líta svo á, að hann vilji greiða þar með atkvæði með niðurlaginn, um að lýsa „ánægju sinni yfir staðfestingu stjórnarskrárinnar“. Hann vill með öðrum orðum greiða atkvæði með því, að telja íhlutunartilraunir danskra stjórnvalda um íslensk mál á ríkisráðsfundi 19. júní 1915, skýrt og ótvírætt mótmælt af Íslandsráðherra, og með því að halda fast við fyrirvara Alþingis 1914, en ekki með því að lýsa ánægju sinni yfir staðfestingu stjórnarskrárinnar, og þá því síður nokkru trausti til stjórnarinnar. Það er því fram komið, að það er af mjög mismunandi ástæðum, er háttv. þingmenn vilja greiða atkvæði með dagskránni, og sumir þeirra vilja slá varnagla við því í henni, sem er nokkurs virði.

Í ræðu háttv. þm. Seyðf. (K. F.) var lítið gengið inn á málið sjálft. Niðurstaða hans var sú, að vjer hefðum ekki glatað neinum rjetti, en hins vegar væri fyrirvaranum ekki fullnægt. Fyrir utan það, þá vitir háttv. þm. (K. F.) aðferðina, og hlýtur því að álíta, að jeg hafi brotið af mjer með staðfestingu stjórnarskrárinnar. Samkvæmt þessu, þá hlýtur háttv. þm. Seyðf. (K. F.) að vera með þeim, er vildu halda áfram ágreiningnum við konungsvaldið, og þá hefði hann átt að vera hreinni og beinni í málinu og með hinum. Það er alt af skemtilegra, og jeg kýs það heldur, að menn sjeu hreinir og beinir, en haltri ekki til beggja hliða. Vitanlega er afstaða háttv. þm. Seyðf. (K. F.) sprottin af alkunnri samviskusemi hans, að hann vill engum rangt gjöra, en afstaða hans er þó hálf-leiðinleg og eigi svo eindregin, sem æskilegt hefði verið í slíku máli sem þessu. Þessi háttv. þm. (K. F.) sagði, að hann vildi ekki bregða fæti fyrir mig á þessu þingi, en jeg vil helst frábiðja mjer mjer nokkra slíka miskunnsemi frá hans og annara hálfu, og jafnsáttur er jeg við hann, þótt hann fái einhvern annan með fylgi sínu til að sitja í ráðherrastólnum. Jeg fyrir mitt leyti kýs helst, að menn sjeu annað hvort með eða móti, annað hvort heiðarlegir meðhaldsmenn eða heiðarlegir mótstöðumenn.

Jeg gat þess í Nd., hvers vegna jeg hefði ekki kallað saman aukaþing, og meðal annara orsaka, sem til þess lágu, var Ingólfsuppljóstunin.