28.12.1916
Neðri deild: 7. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í B-deild Alþingistíðinda. (103)

19. mál, æðsta umboðsstjórn landsins

Sigurður Sigurðsson:

Jeg ætla ekki að tefja tímann með langri ræðu, en finn mjer þó skylt að svara nokkrum orðum, sjerstaklega þar sem háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.), hefir hert á mjer að gjöra það.

Vil jeg fyrst geta þess, að jeg ásaka mig ekki fyrir að hafa komið fram með athugasemdir við frv. þetta. Þykir mjer kyndugt, ef jafnmikilsvert mál á að ganga fram þegjandi og umræðulaust. Tek því ekki nærri mjer þá ásökun, að jeg sje að tefja og auka kostnað, með því að koma af stað umræðum um málið. Jeg álít að almenningur eigi heimtingu á, að fá að sjá það, sem mælt er með eða móti því. Sjerstaklega eru það þrír hv. þm., þeir hæstv. ráðh. (E A ), hv. flm. (M. Ó.) og hv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.), sem hafa borið mjer það á brýn, að jeg gangi á móti því, sem jeg hafi samþykt í mínum flokki. (Ráðh.: Ekki jeg).

En jeg vil þá lýsa því yfir, að jeg hefi engan þátt átt í þessu hálfsmánaðarleynimakki, annað en það, að jeg hefi látið það í ljós, að ef ekki yrði hjá því komist, að ráðherrar yrðu þrír, þá yrði jeg með því, að háttv. 2. þm. Reykv. (J. M.) yrði forsætisráðherra. Hæstv. ráðh. (E. A.) benti á það, að á þinginu 1911 hefði komið fram frv. um að ráðherrar yrðu þrír, en eins og hæstv. ráðh. mun kunnugt, bar jeg þá fram brtt. við frv. þetta, um að ráðherrann væri að eins einn.

Hæstv. ráðherra veit það einnig vel, að í »privat« samtali við hann hefi jeg haft ýmislegt að athuga við fjölgun ráðherra.

Hæstv. ráðherra og flutningsmaður (M. Ó.) hafa lagt mikið upp úr því, að menn þeir, er stjórnin eigi völ á að ráðfæra sig við, hafi enga lagalega ábyrgð. En jeg vil taka það fram, að jeg ætla öllum góðum mönnum það, að þeir leggi ekki annað til mála en það, sem þeir vita sannast og rjettast. Yfirleitt eru ráð þau, sem gefin eru á þennan hátt, gefin í besta tilgangi, og með það fyrir augum, að siðferðileg ábyrgð fylgi. En nú vildi jeg spyrja: Hvernig er hinni lagalegu eða pólitísku ábyrgð farið? Hvernig hefir hún reynst?

Allmikil áhersla hefir verið lögð á festu og styrkleika, er fást mundi með þessari breytingu á stjórninni. Jeg hefi vikið að því áður, að því mun ekki að heilsa. Jeg vil bæta því við, að stjórn, sem svo er til orðin úr bræðingi, getur ekki orðið sterk. Ef bak við þriggja manna stjórn stæði öflugur flokkur, sem allir ráðherrarnir væru teknir úr, væri eitthvert vit í því, að tala um festu. En eins og nú standa sakir, getur ekki verið um neina festu eða styrkleika að ræða. Jeg vil ekki segja neitt frekar um fjölgun embættismanna eða syndir þeirra, annað en það, að jeg er ef til vill kunnugri embættmannastjettinni en flestir aðrir hjer.

Háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) sagði, að jeg hefði verið að tala fyrir kjósendur. Læt jeg slíkar ásakanir liggja mjer í ljettu rúmi. En það læt jeg um mælt, að jeg mun sjaldnar vitna til kjósenda minna en aðrir háttv. þm. Jeg hefi aldrei spurt kjósendur mína um afstöðu þeirra til ráðherrafjölgunar, enda hefði það verið þýðingarlaust, því að þar, sem annarsstaðar, hefði jeg fylgt minni eigin skoðun.

Full ástæða væri til, að minnast á fleira í þessu sambandi, en það vil jeg eigi gjöra nú. En það vil jeg taka fram, að ef slept er ástandinu nú, og starfsauka þeim, er hvílir á stjórnarráðinu út af ófriðnum, myndi engri jafn fámennri og fátækri þjóð detta slík fordild í hug. En þetta aukaþing virðist ekki hafa haft annað hjartfólgnara mál, og fyrsti hálfi mánuðurinn af tíma þess hefir gengið til þess, að búa til þennan þríhöfðaða þurs.