28.12.1916
Neðri deild: 7. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í B-deild Alþingistíðinda. (105)

19. mál, æðsta umboðsstjórn landsins

Ráðherra (Einar Arnórsson):

Fyrst vildi jeg beina fáum orðum til hv. samþingism. míns (S. S.). Jeg heyrði hann ekki fara inn á þau atriði málsins, sem jeg tók að umtalsefni, nje gjöra tilraun til að hrekja neitt.

Eitt persónulegt atriði vildi jeg fara nokkrum orðum um. Hinn háttv. þm. (S. S.) kvað enga ósamkvæmni milli framkomu sinnar 1911 og nú. Hann kveðst hafa borið fram brtt. við stjórnarskrárfrv. Það hrekur ekki neitt, sem áður er sagt um afstöðu hans og annarra þm. 1911. Þar er greitt atkvæði um stjórnarskrárfrv. með nafnakalli, og einn af þeim, sem segir já, er háttv. samþingismaður minn. (Sigurður Sigurðsson: Það er að eins heimild). Nei, það er skylda. Stjórnarskrárfrv. er á þgskj. 934. Þar stendur: »Ráðherrar skulu vera þrír«. Þannig hefir háttv. samþm. minn (S. S.) samþykt 4. gr. frv. eins og hún er orðuð í Alþtíð. frá 1911. Sje þetta ekki rjett, þá ljúga Alþingistíðindin en ekki jeg. Hitt er óhætt að segja, að bæði hann og aðrir höfðu lofað kjósendum að samþykkja stjórnarskrána óbreytta.

Háttv. samþm. minn (S.S.) lagði mikla áherslu á það, að allir myndu þeir gefa góð og heil ráð, er leitað væri til. (Sigurður Sigurðsson: Þegar leitað er til góðra manna). Það eru vissir menn, sem stjórnin má leita til. Þeir eru ábyrgðarlausir, og þótt ráðin sjeu gefin eftir bestu vitund, geta þau reynst miður en skyldi. Þrátt fyrir góðan vilja embættismannanna hafa tillögur þeirra oft reynst bæði óheppilegar og jafnvel ólöglegar. (Sigurður Sigurðsson: Verða þrír ráðherrar þá óskeikulir?). Auðvitað verða þeir engir páfar, en til þess mun ætlast, að þeir verði valdir með hliðsjón á þekkingu þeirra á vissum málum. Aðalreglan mun því verða sú, að þeir hafi sæmilega þekkingu og hæfileika á sínu sviði, ef gjört er ráð fyrir, að á Alþingi sitji menn með heilbrigðri skynsemi, þótt auðvitað geti komið fyrir, að valið mistakist á einhverjum þeirra.

Jeg vil eigi þræta við háttv. þm. (S. S.) um kunnugleik hans á embættismönnum. En hræddur er jeg um, að hann setji upp svörtu gleraugun, er hann lítur á embættismennina, og fyrir því verði þeir ærið dökkleitir í augum hans. En að þeir sjeu svo ótækir, sem hann gefur í skyn, get jeg ekki fallist á.

Þá vildi jeg minnast á persónulega athugasemd háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) til mín. Hann beindi því til mín, hvort jeg teldi mig hafa vanrækt nokkuð af störfum mínum, vegna óhjákvæmilegra anna út af stríðinu. Auðvitað get jeg ekki viðurkent, að jeg hafi vanrækt nein »administrativ« stjórnarstörf, en minna vil jeg háttv. þm. á máltæki latínumanna, er svo hljóðar:

»Ultra posse nemo obligatur«.

Ef þess ætti að krefjast, að stjórnin hafi frumkvæði í öllum málum, mætti segja, að bæði jeg og fyrirrennarar mínir hafi vanrækt mikið. En með því að krefjast slíks, væri að eins tekin ytri hliðin, án tillits til þess, hvað mögulegt er og hvað ekki.

Um lagaundirbúninginn hefir verið talað af háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), og öðrum. Verður það varla varið, að sá undirbúningur hefði átt að vera meiri og betri en fyrverandi stjórnir hafa getað int af hendi. En vegna þess, hve vinnukrafturinn er lítill hjá stjórninni, hefir ekki verið hægt að gjöra meira. Þegar nú stríðinu ljettir af, munu kröfur þings og þjóðar vaxa að miklum mun.

Mjer finst maður verða að gjöra ráð fyrir, að ef stjórnin er skipuð þrem mönnum, hljóti hún að vera færari en 1 maður. í stað eins koma þrír; hver þeirra um sig hefir betri þekkingu á sínu sviði, en einn maður getur haft á öllum sviðum, og betri tíma, þar sem hver þeirra hefir að eins ? af öllum störfunum á sínum herðum. Þetta hafa þeir fram yfir, og auk þess sömu embættis- og sýslunarmenn að ráðfæra sig við. Sjeu því þessir þrír menn, hver um sig, jafnir einum að atorku og dugnaði, standa þeir þrefalt betur að vígi.

Mjer finst því að þetta eigi ekki að vera bráðabirgðarráðstöfun.

Það hefir verið talað um, að kjósendur hafi ekki verið spurðir um málið. Síður er en svo, að þetta sje rjett. Kjósendur hafa einmitt verið spurðir um þetta mál, nánar en flest önnur, þar sem stjskrfrv. þingsins 1911 var beint lagt undir atkvæði þeirra haustið 1911. Með allri virðingu fyrir kjósendum, tel eg þetta mál svo vaxið, að þeir geti einna minst um það dæmt allra mála. (Gísli Sveinsson: En rökstudda dagskráin?) Hana vil jeg helst skoða sem fleskbita, sem stungið er upp í barn, sem borið er út. Hún var víst hægur útvegur til að molda frv. stjórnarinnar 1915. Rökstudda dagskráin segir »til næsta þings«. Nú vita allir, að aukaþing er líka Alþingi, og samkv. stjórnskipunarlögunum er heimilt að bera fram ráðstafanir á aukaþingum eins og öðrum þingum. Hvað þingið meinti 1915, kemur mjer ekki við. Sennilega er þar átt við reglulegt þing, af því að menn gátu þá ekki vitað um aukaþing þetta.

Aðalatriðið er það, hvort þetta skipulag er betra. Jeg tel það betra, og fylgi því þess vegna, og er það í samræmi við fyrri framkomu mína. Kostnaðaraukann, sem er eina frambærilega mótbáran, tel jeg einkis virði. Hefði þó mátt búast við, að háttv. samþingismaður minn (S. S.) myndi tala meira um kostnaðinn. Jeg hefi sem sje fyrir satt, að vilji menn tala svo, að kjósendum láti vel í eyrum, þá sje ekkert betur til þess fallið en að tala um mál með tilliti til kostnaðar þess, er þau hafa í för með sjer.