28.12.1916
Neðri deild: 7. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í B-deild Alþingistíðinda. (106)

19. mál, æðsta umboðsstjórn landsins

Bjarni Jónsson:

Þótt nú sje orðið hjer um bil óþarft að orðlengja frekar um þetta mál, vil eg þó benda á einstök atriði. Jeg ætla, að enginn hafi vikið að því, hvernig haga skuli formensku bankaráðs Íslandsbanka, er ráðherrar eru orðnir þrír. Held jeg, að ekki sje minst á það í frv. Jeg bendi flutningsmönnum frv. á að taka til íhugunar, hvort þeir vilji hafa það í þessum lögum eða öðrum. Auðvitað liggur mjer ekki á hjarta, að ljetta af hinni komandi stjórn, en út af þessu atriði gætu síðar risið deilur, og hinn blessandi friður farið út um þúfur.

Jeg vildi víta það hjá einstökum þm., að ástæða þessarar stjórnarbreytingu væri erfiðleikarnir á að koma á laggirnar nýrri stjórn. Það er rangt, að þingið breyti stjórnarskipuninni út úr slíkum vandræðum. Hitt er öllum skiljanlegt, að hvar í heimi, sem svo stendur á, að enginn er meiri hluti, verður að gjöra samrunastjórn (Koalitionsministerium). Slíkt hefir eðlilega í för með sjer málaþóf og samninga utan þingfunda, og ekkert einkennilegt, þótt það tefji tímann. En hitt hygg jeg rjett vera, að hinn nýstofnaði þingflokkur hafi lagt sjerstaka áherslu á fjölgun ráðherra. Fyrri þm. Árn. (S. S.) lagði áherslu á, og talaði fyrirlitlega um »makk« þingmannanna, og skildist, að hjegómadýrð og valdagræðgi hefði verið tilefni til hálfs mánaðar rifrildis meðal þeirra.

Jeg hefi þá aðstöðu þing eftir þing, að segja háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) til syndanna fyrir það, að hann notar hvert tækifæri til þess, að ávíta sjálfan sig harðlega, því að hann er, eins og jeg, einn starfsmanna landsins, og alt, sem hann segir um þá, á því við um sjálfan hann. Háttv. þm. (S. S.) sagði, að því fleiri sem embættismenn yrðu, því ónýtari yrðu þeir. Samþingismaður hans og góður vinur (E. A.) spurði eftir hverju náttúrulögmáli það færi. Líklega þekkir háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) dæmi þess úr Landsbúnaðarfjelaginu, og mætti því ætla, að ráðunautar þar væru of margir, svo að hann mundi einn nægja.

En svo að jeg víki að frv., skal jeg bæta einni ástæðu við fyrir fjölgun ráðherra, sem ekki hefir verið nefnd, tryggingunni. Þegar tvö ár líða svo, að þing kemur ekki saman, þá er alt of mikil áhætta fólgin í því, að láta einn mann fara með stjórnina, og er þá beint hjákátleg ástæða, að vera að tala um kostnað í samanburði við trygginguna fyrir því, að hag landsins verði betur borgið. Jeg hefi áður látið í ljós hjer á Alþingi, að þeirri tryggingu væri best borgið með því annaðhvort að fjölga ráðherrum eða láta þingið sitja lengur og árlega. Af þessum ástæðum mun jeg greiða atkvæði með frv.