28.12.1916
Neðri deild: 8. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í B-deild Alþingistíðinda. (113)

19. mál, æðsta umboðsstjórn landsins

Flm. (Matthías Ólafsson):

Jeg hefi litlu við að bæta við það, sem jeg sagði við 1. umr. Jeg skal geta þess, út af brtt. á þgskj. 26, að af ógáti hafði öfugt handrit farið í prentsmiðjuna, svo að brtt. á þgskj. 26 er að eins leiðrjetting. Það segir sig sjálft, að ráðherrann eða ráðherrarnir kunna að þurfa að fara til annara staða en Kaupmannahafnar í erendum landsins, og liggur það í hlutarins eðli, að landsjóður greiði þann kostnað. Jeg býst við, að öllum skiljist það, svo að jeg þarf ekki að hafa fleiri orð um þetta atriði.

Þá skal jeg snúa mjer að brtt. á þgskj. 28. Háttv. þm. Stranda. (M. P.) hefir nú talað fyrir henni, og voru röksemdir hans gamlir kunningjar frá því á fundinum í dag. Hann telur það heppilegt að frestað verði að taka fullnaðarályktun um það, hvort sú ráðstöfun skuli vera til frambúðar, að ráðherrar sjeu þrír. Telur það nægilegt, að þeim sje fjölgað meðan á stríðinu stendur. Jeg er, eins og jeg býst við að allir viti, á annari skoðun, og er sú ástæða til þess, meðal annars, að jeg tel nú hafa verið færð nægileg rök fyrir því, að nauðsynlegt sje að fjölga ráðherrunum, þótt ekki sje ófriður til að auka störfin. Það hafa verið færð rök að því, að menn höfðu fundið til þess þegar fyrir ófriðinn, að nauðsynlegt væri að fjölga ráðherrunum.

Háttv. flutnm. brtt. vilja ekki láta þessa ráðstöfun gilda nema til næsta þings. Jeg tel alls ekki víst, að ófriðurinn verði búinn 1919, og þá yrði nauðsynlegt að framlengja lögin, og jeg er þess fullviss, að þótt ekki verði ófriður þá, verða lögin samt framlengd, og svo mundi það ganga koll af kolli á hverju þingi, og yrði þá slík lagasetning nokkuð hjákátleg.

Háttv. flutnm. brtt. (M. P.) sagði vera ástæðu til að fresta fullnaðarúrslitum þessa máls, af því að á þeim tíma væri hægt að fá að vita vilja kjósenda um þetta mál. Jeg skil ekki að kjósendur þurfi lengri tíma en þeir hafa haft til þess að átta sig á þessu máli. Það hefir nú legið í loftinu um allmörg ár, að ráðherrum yrði fjölgað, og það hafa eflaust flestir kjósendur verið búnir að mynda sjer fasta skoðun um það mál, um síðustu kosningar. Og jeg býst við því, að frambjóðendur hafi spurt kjósendur um vilja þeirra í þessu efni á þingmálafundum í haust; að minsta kosti var það svo um mig, að jeg ræddi þetta mál við mína kjósendur. Jeg var spurður um afstöðu mína til þessa máls, og svaraði jeg því hiklaust á þá leið, að jeg mundi verða því máli samþykkur, því að jeg teldi, að nauðsyn tímanna heimtaði, að ráðherrum yrði fjölgað. Þessu var tekið með þegjandi samþykki af öllum, sem við voru, enda skil jeg ekki, að kjósendur geti haft betur vit á þessu máli en við, sem sitjum hjer í þessari deild, og jeg skil ekki að Alþingi verði nokkurntíma svo samsett, að það vilji hverfa aftur til sama ráðs og áður um þetta mál. Jeg get aldrei fallist á, að vera að fresta úrslitum þessa máls, því að því verður slegið föstu hvort sem er á næsta þingi, og því væri ekkert annað en skollaleikur að vera að samþykkja brtt. á þgskj. 28.

Jeg læt svo úttalað um þetta mál, enda ekki til neins að vera að lengja umræður um það, þar sem úrslitin eru fyrirfram fast ákveðin. Auðvitað er það leitt, að háttv. flutnm. brtt. skuli ekki ætla að greiða frv. atkvæði sín, en þrátt fyrir það hugsa jeg, að sæmilegur meirihluti muni fást til að samþykkja frv., þótt brtt. þessi verði feld.