28.12.1916
Neðri deild: 8. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í B-deild Alþingistíðinda. (114)

19. mál, æðsta umboðsstjórn landsins

Bjarni Jónsson:

Það sem jeg ætla að segja, eru að eins nokkur orð um brtt. mína (þgskj. 26). Þegar jeg sá standa í frv. að greiða skyldi ferðakostnað ráðherrans, er hann færi til Kaupmannahafnar, úr landssjóði, þá breytti jeg því þegar í stað, og það af þeim ástæðum, er nú skal telja.

Það stendur því miður svo í stjórnarskránni, að ráðherra skuli fara svo oft til Kaupmannahafnar, sem þörf er á, og bera þar upp fyrir konungi mál Íslands, þar sem hann ákveði. í þessu er dálítil mótsögn, því að konungur getur alveg eins vel ákveðið, að málin skuli bera upp fyrir sjer annarstaðar en í Kaupmannahöfn, og ætti þá ekki samkvæmt lögunum að greiða þann ferðakostnað, hans. Ef vjer t. d. gjörum ráð fyrir því, að ráðherra skuli þurfa að fara út á Jótland, þar sem konungur á eitthvert bæjarhróf, þá væri það nokkuð einkennilegt, ef ekki ætti að greiða ferðakostnaðinn, nema til Kaupmannahafnar, en svo ætti ráðherra sjálfur að greiða fyrir ferð sína þaðan til Jótlands. Það liggur líka í stjórnarskrárgreininni, að konungur getur heimtað málin borin upp fyrir sjer, hvar sem honum lítst, og hann og ráðherra Íslands hittast. T. d. gæti staðið svo á, að ráðherra og konungur hittust í Færeyjum, og gæti þá konungur krafist, að málin yrðu borin þar upp fyrir sjer. Vjer megum ekki setja neitt það í lög, sem gæti orðið til þess, að festa mál Íslands í ríkisráði, frekar en orðið er, en einmitt slíkar afleiðingar getur þann veg vaxið ákvæði, sem þetta, haft.

En auk þessa getur ráðherrann þurft að fara margt annað í embættiserindum, en til Kaupmannahafnar, og er þá auðvitað sjálfsagt, að sá ferðakostnaður hans verði greiddur úr landssjóði.