28.12.1916
Neðri deild: 8. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í B-deild Alþingistíðinda. (115)

19. mál, æðsta umboðsstjórn landsins

Þórarinn Jónsson:

Jeg vildi síst af öllu verða til þess, að tefja tíma þingsins með mikilli mælgi um þetta mál, af því líka að jeg veit, að umræður um það ráða engu um úrslit þess hjer í þinginu. En orð, sem fallið hafa hjer í deildinni í dag, koma mjer til að standa upp.

Sumir menn hjer vilja halda því fram, að þessi ráðstöfun um fjölgun ráðherra, eigi einungis að vera til bráðabirgða. Sje fram komin til þess, að fá frið milli flokkanna; og þó jeg álíti þetta mikilsvert, sjerstaklega á þessum tímum, þá er það þó ekki það, sem atkvæði mínu ræður, heldur hefi jeg stöðugt sannfærst um það betur og betur, að þetta sje nauðsynlegt, og hjer er því frá mínu sjónarmiði að ræða um framtíðar breytingu.

Jeg skal ekki tala mikið um þjóðarviljann í þessu máli, því að um hann verður ekkert sannað á hvoruga hliðina, en því skal jeg lýsa yfir, að jeg tel kosningaundirbúninginn fyrir kosningarnar 1912, ekki minna virði, en rökstuddu dagskrána 1915, sem einn hv. þm. (G. Sv.) vildi leggja svo mikla áherslu á. Það mun óhætt að fullyrða það, að þá var talsverð pólitík komin inn í þetta mál í þinginu, og á meðan hafði þjóðin ekkert orð um það sagt.

Það sem vakir fyrir mjer, að sje aðalkosturinn við þessa breytingu, er það, að nú. verði fremur en áður, kostur á að setja fagmann yfir hvern flokk mála, og það tel jeg geta orðið ómetanlegan gróða. Áður hefir það einkum verið svo, að lögfræðingar hafa verið settir til að fara með öll málin, því að það eru einkum lögfræðingar, sem fyrir ráðherrakjörinu verða, en þótt lögfræðingar sje oft mjög færir menn, margir, þá er ekki hægt að búast við því, að þeir sje, fremur en aðrir menn, alvitrir. Þeir geta verið góðir til að fara með dómsmálin, þótt þeir sje algjörlega ófærir til að hafa afskifti af fjármálum og atvinnumálum, og einmitt fjármálin og atvinnumálin eru þau mál, sem þjóðina skifta mestu, að færir menn vjeli um. Þarf ekki að fara langt aftur í tímann, til þess að benda á, að þjóðin hefir orðið fyrir stórstjóni, sem sýnist vera fyrir vanþekkingu stjórnarinnar á því máli, og svo mætti mörg dæmi telja.

Það sem mjer þykir einkum undarlegt í þessu máli er það, ef þessi nýi flokkur hjer í þinginu, sem telur sig fylgja hinni óháðu stefnu, sem einkum fer í þá átt að vilja að atvinnuvegir landsins eða stjettir ráði flokkaskiftingu, — ef þeir verða svo ótrúir sínum málstað, að verða á móti fjölgun ráðherra. Þeir ættu þó að sjá, að ekkert er það sem styrkir stefnu þeirra eins og einmitt þetta, að ráðherrum verði fjölgað á þeim grundvelli, sem jeg hefi nefnt.

Jeg tek þetta fram sem almennar athugasemdir. Hvað snertir brtt. 28, sem fram er komin, þá er jeg henni mótfallinn, og byggist það á þeim almennu ástæðum, er jeg hefi tekið fram. Aðrar sjerstakar ástæður eru margar með frv., og hafa af öðrum verið teknar fram. Um það, sem á hefir verið minst, hvort kjósendur mínir vilja öðru vísi en jeg í þessu máli, eða hafi aðra skoðun en jeg í þeim málum, sem miklu skifta, þá leiðir ekki annað af því, en að þeir strika mig út.

Um kostnaðaraukann, sem þetta veldur, er varla ræðandi, því hann er svo lítill, að það getur unnist upp á hinum smávægilegustu atriðum, eins og jeg hefi áður drepið á.

Jeg get ekki sjeð, að nokkur bót geti verið að því, að takmarka tímagildi þessara laga, eða láta þau að eins gilda til 1919, því að þótt vjer viljum breyta aftur til og fækka ráðherrunum, þá er það hægt með einföldum lögum. En jeg er þess fullvís, að vjer gjörum það aldrei, jafnvel þótt svo óheppilega geti viljað til, að þinginu mistakist valið á einhverjum ráðherranum að þessu sinni.