28.12.1916
Neðri deild: 8. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í B-deild Alþingistíðinda. (116)

19. mál, æðsta umboðsstjórn landsins

Magnús Pjetursson:

Það var einungis örstutt athugasemd.

Jeg vildi einungis leiðrjetta þann misskilning hjá háttv. flutningsm. (M. Ó.), að til þess sje ætlast í brtt. okkar, að þetta skuli gilda að eins til næsta þings. Næsta þing verður 1917, en það er einmitt skýrt tekið fram í tillögu okkar, að þetta skuli gilda til 1919.

Hv. flm. (M. Ó.) talaði mikið um það, að hann hefði svarað kjósendum sínum því, að nauðsyn tímans krefði, að ráðherrum yrði fjölgað. Jeg skal ekki bera á móti því, að þessu sje vel svarað hjá háttv. þm., en kjósendur hefðu getað misskilið það á þann hátt, að hann ætti einmitt við þessa yfirstandandi tímans nauðsyn, ófriðarástandið, og tel því einnig ósannað, að hans kjósendur sje þessu fyrirkomulagi samþykkir á venjulegum tímum.

Jeg býst við því, að það sje satt, sem háttv. flutnm. sagði, að litlu muni, hvoru megin atkvæði okkar flutnm. brtt. liggja í þessu máli. Og það má vel vera, að þeir, sem tekist hafa á hendur að ábyrgjast þessa fyrirhuguðu stjórn, sjeu svo fast saman keyrðir, að ekki megi þeir í neinu atriði úr flokki víkja. En ef nokkuð mætti marka samtöl manna á milli, þá hefði jeg búist við því, að fleiri atkvæði yrðu fyrir þessum brtt. en okkar flutningsmannanna.