28.12.1916
Neðri deild: 8. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í B-deild Alþingistíðinda. (119)

19. mál, æðsta umboðsstjórn landsins

Gísli Sveinsson:

Jeg gat þess áðan, er frv. var til 1. umr., að jeg mundi hallast að till. á þgskj. 28, og það af þeirri ástæðu, að mjer finst, að þörfin á því að hafa þrjá ráðherra ekki vera knýjandi, þótt hún sje sköpuð við þetta sjerstaka ástand, sem nú er í þinginu. Og jeg hefi ekki getað sannfærst um annað af þeim rökum, sem jeg hefi heyrt borin fram hjer í deildinni.

Hvað því viðvíkur, sem hæstv. ráðh. (E. A.) sagði, að það yrði að setja ný lög til að stofna landritaraembættið af nýju 1919, ef ráðherrum yrði þá fækkað aftur, þá er því til að svara, að sje ekki nauðsyn á millilið meðan þrír ráðherrar eru, þá er hans ekki frekar þörf, þótt ekki sje nema einn, ef landritaraembætti hjer á að svara til þeirra embætta, er departementchefar skipa í öðrum löndum.

Með því að samþykkja brtt. 28, og ákveða að ráðherrar sjeu þrír til 1919, mundi gefast ágætt tækifæri til að reyna fyrirkomulag þetta og sannfærast um nauðsyn þess. Þá mundu menn líka hafa prófað, hvort halda beri því til frambúðar eða ekki.

Háttv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) lagði mikið upp úr því, að með þessu fyrirkomulagi mundi fást hæfur maður til að fara með hverja sjergrein, sem undir stjórnina heyrði. Sje jeg ekki, að þau orð hafi við rök að styðjast. því auðvitað eru sjergreinar fleiri en þrjár í málum þeim, er stjórnin á með að fara. Og þótt tveir eða þrír menn fáist, sem vita betur en einn, á einhverju sviði, þá mundi ekki svo vera á öllum sviðum og mundi reka að því, að hver þessara þriggja manna yrði að fjalla um alóskyld mál og sundurleit.

Þótt mjer sje málið skylt, verð jeg að lýsa því yfir, að jeg álít það heppilegast, sem viðgengist hefir, að ráðherra sje lögfræðingur. Sú mentun gefur mikið í hendur og gjörir mönnum auðvelt að kynna sjer mörg mál og bera skyn á margt, sem stjórnendum er brýn nauðsyn á að þekkja.

Get jeg ekki sjeð, þótt einhver maður hafi fengist við fjármál á einhverju takmörkuðu sviði, eða bóndi, sem kemur ofan úr sveit, sje þar fyrir hæfari í stjórnarstöðu en velmentaður og duglegur lögfræðingur.

En úr þessu á reynslan að skera, einmitt með því, að miða fyrirkomulagið við takmarkað árabil.

Þá vildi jeg líka taka fram gagnvart háttv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.), að það er talsvert annað, að breyta lögum en setja ný lög. Sje frv. samþ. óbreytt, þyrfti að breyta lögunum til þess að fækka ráðherrum aftur. En sje brtt. samþykt þarf enga lagabreytingu til þess. Annars býst jeg við, að kröfur þessa tíma sje ekki fastskorðaðar í meðvitund allra landsmanna, og mjer vitanlega liggur ekki fyrir samhljóða ósk kjósenda um fjölgun ráðherra. Býst miklu fremur við, að skoðanir manna sje skiftar í því efni.