28.12.1916
Neðri deild: 8. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í B-deild Alþingistíðinda. (121)

19. mál, æðsta umboðsstjórn landsins

Þórarinn Jónsson:

Jeg vil leyfa mjer að gjöra fáeinar athugasemdir við það, sem háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) sagði. Fórust honum orð á þá leið, að ekki mundi vera sönn ástæða eða nauðsyn, að fjölga ráðherrum til frambúðar. Sömuleiðis taldi hann rök þau, er jeg færði fyrir nauðsyn þess, vera líkur einar og þær illa rökstuddar. Það er að vísu rjett, að á meðan engin reynsla er fengin, er ekki um annað að ræða en líkur. En líkur þær geta verið rökstuddar, og sje jeg ekki, að hann hafi hrakið þá skoðun mína, að þrír menn með sjerþekkingu, hver á sínu sviði, sje færari til að stjórna en einn lögfræðingur. Jeg hefi að minsta kosti þau kynni af lögfræðingum, að þótt þeim sje ljett um tungutak, og lagið að fara fögrum orðum um sjálfa sig, þá sje þeir ekki betri en aðrir í öllum greinum, og þótt þeir hafl, ef til vill, einhverntíma fært einkamál fyrir einhvern út af atvinnumálum eða fjármálum, þá fæ jeg ekki skilið, að þeir með því hafi öðlast neina yfirgripsþekkingu á þeim sviðum. Og oft munu afskifti þeirra vera á þann veg, að ekki hækki þá svo mjög í áliti.

Jeg legg mikið upp úr því, að maður, í hvaða stöðu sem er, sje kunnur þeim störfum, sem hann á að inna af hendi, og get jeg ekki sjeð annað en að maður, sem í mörg ár hefir fengist við atvinnumál, sje færari til að fara með stjórn þeirra en lögfræðingur, sem hefir þar aldrei nærri komið. Þetta álít jeg að hafi ekki verið tekið til greina sem skyldi. Þá vildi jeg benda á það, að sjeu störfin svo mikil, að naumast sje fært einum manni yfir að komast, þá er hætt við að þann mann bresti hugsjónir, sem svo er önnum kafinn í dagstriti. En sá maður, sem á að hafa frumkvæði margra mála, og á að vekja og veita inn nýjum straumum, hann þarf og á að vera hugsjónamaður. Þetta atriði eitt tel jeg ómetandi. Get jeg ekki sjeð, að önnum kafinn og hugsjónalaus lögfræðingur sje færari um að gegna stjórnarstörfum en þrír menn með sjerþekkingu, sem ekki þurfa að starfa úr hófi fram.

Jeg verð að játa það, að enn þá vantar sjerfræðinga í atvinnumálum og verslunarmálum, en þegar eru ungir menn farnir að leggja þau fyrir sig, og eftir því sem atvinnuvegir vorir blómgast, er vonandi að fleiri færir menn komi fram á hverju sviði.

Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) benti mjer á það, að erfiðara væri að breyta lögum, en setja ný lög. Það skil jeg ekki, sjálfsagt af því, að jeg er ekki lögfræðingur. Enda vil jeg ekki gjöra þinginu þær getsakir, að það geti ekki eins fækkað ráðherrum, eins og fjölgað, ef það verður niðurstaðan, að ekki þurfi þrjá. Annars er það trú mín, að reynslan sýni hið gagnstæða.