28.12.1916
Neðri deild: 9. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í B-deild Alþingistíðinda. (126)

19. mál, æðsta umboðsstjórn landsins

Sigurður Sigurðsson:

Satt að segja bjóst jeg ekki við, að þetta mál yrði rekið áfram svo viðstöðulaust með afbrigðum frá þingsköpunum. Jeg ætlaði, að háttv. þm. myndu fá lengri tíma til að átta sig og gjöra brtt. Samt hefi jeg leyft mjer að bera fram brtt. þá, er hæstv. forseti hefir nú lýst úr sæti sínu. Jeg get verið mjög stuttorður um hana. Hún er bygð á því, að jeg tel 6000 kr. full sæmileg árslaun handa 2. og 3. ráðherra. Landritari hefir haft 6000 kr. Þegar störfin skiftast, gjöri jeg ekki ráð fyrir, að hvor þeirra tveggja hafi meira að gjöra en landritari hefir haft. Jeg gjöri ráð fyrir, að það komi á bak forsætisráðherranum, að halda veitslur, og ýmiss annar kostnaður. Enn fremur má gjöra ráð fyrir, að á honum hvíli meiri störf, og leiðir þetta alt af stöðu hans í ráðuneytinu. Alt þetta mælir með því, að laun hinna verði ekki hærri. Alt af í öðru veifinu er talað um, að sníða sjer stakk eftir vexti, og miða laun opinberra starfsmanna við efni og ástæður þjóðarinnar. Nú tel jeg, að ástæður vorar leyfi ekki hærri laun en þetta. Auk þess sjá allir, að 6000 kr. eru mjög sómasamleg laun. Hversu margir eru það ekki, og það jafnvel í opinberri stöðu, sem verða að sætta sig við margfalt minna? Hví skyldi fátæk þjóð, sem er að »punta upp á« sig með 3 ráðherrum, ekki láta sjer nægja, að launa þeim sómasamlega, án þess að leggja í óþarfan kostnað? Getur vel verið, að nú í dýrtíðinni, er allir kveina og kvarta og heimta launaviðbót, þyki 8000 kr. ekki of mikið. En nú er ekki verið að ræða um, að ráða til lykta dýrtíðarmáli, heldur semja lög fyrir framtíðina.

Vil jeg svo ekki orðlengja frekar um málið, en vænti þess, að brtt. þessi verði samþykt hjer í háttv. deild.