05.01.1917
Neðri deild: 15. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í B-deild Alþingistíðinda. (152)

27. mál, strandferðaskip

Framsm. (Þorsteinn Jónsson):

Frv. það sem hjer liggur fyrir er fram komið af þeirri ástæðu, sem fram er tekin í nefndaráliti samgöngumálanefndarinnar, að nefndin hyggur, að eigi sje annar kostur til að halda uppi strandferðum, meðan stríðið stendur yfir, en sá, að landssjóður eigi sjálfur skip til strandferða.

Land vort er sævarjörð og hefir því þau hlunnindi, sem sævarjörðum fylgja. Það á sjer sjálfgjörðan veg alt í kringum strendur sínar. Og liggja þeir vegir víða langt inn í það. Meðfram vegum þessum liggja flestallar bygðir landsins. Engum getur dulist nauðsyn landvega, en til þeirra þarf miklu að kosta. Aftur á móti þarf engu til að kosta vegarins kringum landið; þar þarf að eins að fá flutningatækin — skip.

Engum dylst flutningaþörfin, og sú þörf eykst sífelt jafnt og þjett eftir því, sem framfarir, framleiðsla og menning eykst í landinu. Stríðið mikla, sem nú geisar í Evrópu, þarf ekki að skjóta oss skelk í bringu, Íslendingum, þrátt fyrir þær hörmungar allar, sem því fylgja, ef við að eins getum trygt næga vöruflutninga til landsins. Það er aðal-óttaefnið, að viðskifti vor við önnur lönd teppist. En þótt nú svo verði ekki, og nóg verði millilandaskip, þá koma þau ekki inn á nema stærstu hafnir landsins. Þess vegna þurfum vjer að halda uppi strandferðum, til þess að koma vörum inn á hafnir landsins. Það liggur í augum uppi, að slíkt er lífsnauðsyn. Sömuleiðis þurfum vjer skip til að flytja fólk hafna í milli. Sjerstaklega þurfum vjer að greiða götu sjómannanna, sem verða að flytja sig eftir því, sem fiskurinn flytur sig.

Jeg vil benda á það, þótt það sje tekið fram í nefndarálitinu, að á síðasta þingi var samið við Eimskipafjelag Íslands, um að það hjeldi uppi strandferðum með tveim skipum. Gjört var ráð fyrir, að það leigði tvö skip á stærð við Austra og Vestra, og hagaði strandferðum líkt og þegar þeir voru strandferðaskip. En þegar til kom, gat fjelagið ekki fengið leigð nein skip og gekk landstjórnin þá að nýjum samningi, að það ljeti skipin Gullfoss og Goðafoss taka að sjer strandferðir, jafnframt því, sem þau væru millilandaskip. Hefir svo verið síðastliðið ár. En bæði er það, að skip þessi voru of dýr og of stór strandferðaskip, og svo veitti ekki af þeim eingöngu til millilandaferða. Hvort sem skip fæst í staðinn fyrir Goðafoss eða ekki, þá hefir Eimskipafjelagsstjórnin lýst yfir því, að hún geti ekki tekið að sjer strandferðir næstkomandi ár, sem sjá má af brjefi Eimskipafjelagsstjórnarinnar, sem fylgir nefndarálitinu sem fylgiskjal I. Líka má taka það fram, að strandferðir síðastliðið ár voru mjög ófullnægjandi. Inn á sumar hafnir voru skipunum aldrei áætlað. Má þar til nefna Borgarfjörð eystra, sem þó er staður með alt að 150 þús. kr. verslunarumsetningu og hefir um 40 báta útgjörð, en innsigling ekki lengri en um ¼ klst. frá venjulegri skipaleið. Til slíkra hafna hefir orðið að kaupa seglskip og mótorbáta til vöruflutninga. Þetta fyrirkomulag verður að teljast óviðunandi. Við getum reyndar ekki búist við því, að koma strandferðum í það horf, sem æskilegast væri, að svo komnu, en við verðum þó að fá einhverjar strandferðir, og þær hagkvæmari en síðastliðið ár. Eitt skip til strandferða er það minsta, sem við getum komist af með.

Nefndin ræddi um það, hvort heppilegra mundi að kaupa það eða leigja. Nú er skipaleiga svo há, að betur mun borga sig að kaupa skip, þótt dýrt sje, og af því ekki er fyrirsjáanlegt, að hægt verði að leigja skip, þá verðum við að neyðast til, að leggja út í skipakaup þau, sem frv. ræðir um. 800 smálesta skip mundi, eftir sögn framkvæmdarstjóra Eimskipafjelags Íslands, kosta um 800,000 kr. Er í því lítið farþegarúm. Væri það með miklu farþegarúmi, mundi það verða miklu dýrara. Samt þorði samgöngumálanefndin ekki að ákveða þetta sem hámarksverð, af því að skip stíga einlægt í verði og aldrei víst með hvaða kjörum þau fást. Búast má því við, að taka verði skip, sem ekki væri útbúið eins og nefndarálitið ætlast til, jafnvel þótt það hefði ekkert sjerstakt farþegarúm.

Jeg þykist vita, að mörgum muni þykja það allægileg upphæð, að verja 800,000 kr. fyrir skip, sem væri þó ekki stærra nje vandaðra en hjer er gjört ráð fyrir. Því verður heldur ekki neitað, að það væri verra kaup en á Austra og Vestra, sem Alþingi stóðu til boða fyrir 340,000 kr. árið 1912, en hafnaði kaupunum. Sömuleiðis mundum vjer nú þakka fyrir að fá skip eins og Ísafold fyrir 72,000 kr., sem Alþingi 1915 hafnaði kaupunum á. En tilboð þessi standa ekki lengur, og þýðir ekki um orðinn hlut að sakast.

Nú tjáir ekki lengur að spara landssjóð til skipakaupa. Skipið þurfum vjer að fá, ef við eigum ekki að »fljóta sofandi að feigðarósi«.

Færi nú svo, að stríðið hætti áður en fest yrðu kaup á þessu fyrirhugaða skipi, og stjórnin gæti fengið leigt skip með hæfilegum kjörum, þá er nefndin með því, eins og sjá má á áliti hennar, að hætt verði við skipakaupin. Reyndar þykist nefndin þess fullviss, að óþarft sje að gjöra ráð fyrir slíku, en fari svo, þá sje sjálfssagt að fá tvö skip leigð, svo að strandferðirnar komist í líkt horf og fyrir stríðið. Nefndin gengur út frá því, að þótt skip verði keypt og notað til strandferða meðan stríðið stendur, þá verði önnur skip fengin að stríðinu loknu, sem betur sjeu til strandferða fallin. Þetta skip má þá annaðhvort selja, eða nota það til millilandaferða. Sem sagt, þá má eitthvað við það gjöra, þótt ekki fáist jafnmikið fyrir það, og við verðum að gefa fyrir það nú.

Strandferðirnar eru okkur lífsnauðsyn, og þótt landssjóður beri halla af þeim, er þó óbeinn hagnaður landsmanna miklu meiri.

En skipakaup þessi eru stríðsráðstafanir og neyðarúrræði, og strandferðir með einu skipi ekki nema til að bæta úr brýnustu þörfinni.

Seinna meir, þegar Ragnarök stríðsins eru hjá liðin, og nýr heimur, nýtt þjóðlíf, nýjar framfarir og ný menning ris upp úr rústum veraldarstríðsins, með meiri þrótti en áður, þá þurfum vjer að koma strandferðum vorum í það horf, sem menningarþjóð þarfnast með. Þá þurfum vjer að hugsa hærra en um einn vöruflutningadall með fáum flóabátum. Þá þurfum vjer á svo greiðum ferðum að halda kringum landið, að skip komi að minsta kosti á viku hverri á hverja höfn landsins, til að flytja póst, fólk og vörur.

Hvað áætlunina snertir, sem nefndin hefir samið fyrir hið fyrirhugaða skip, þá býst jeg við, að einstakir þingmenn muni gjöra breytingar á henni, og mun nefndin taka þær til greina, eftir því sem hún sjer sjer fært. Á þeim svæðum, þar sem flóabátarnir hafa tíðar ferðir, hafa viðkomur verið áætlaðar færri.

Fleira man jeg ekki, að jeg þurfi að minnast á að þessu sinni. Vísa að öðru leyti til álits nefndarinnar.