06.01.1917
Neðri deild: 16. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í B-deild Alþingistíðinda. (157)

27. mál, strandferðaskip

Matthías Ólafsson:

Jeg álít óheppilegt að hrapa svo að máli þessu, að flýtt sje umræðum með afbrigðum frá þingsköpum. Álít að þetta sje slíkt vandamál, að rækilegrar íhugunar þurfi.

Eftir því sem áætlun sú segir, sem gjörð hefir verið fyrir strandferðir, þá er þar gjörsamlega slept úr stöðum, sem brýn nauðsyn er á, að gjörðir sjeu að viðkomustöðum. T. d. í Vestur-Ísafjarðarsýslu er slept úr Súgandafirði. Þar er þó útgjörð mjög mikil, um 20—30 mótorbátar, og aflaföng góð, enda er Suðureyri í Súgandafirði fjölmennasta kauptúnið í Vestur-Ísafjarðarsýslu. Virðist því liggja í augum uppi, að slíkum stað megi ekki gleyma.

Hjer er annað tveggja, að nefndin hefir ekki næga landafræðisþekkingu eða brestur nærgætni og athugasemi. Og sje fleira jafn-athugavert við störf hennar, þá sje jeg enga ástæðu til að hraða málinu svo mjög, sem gjört hefir verið, og var jeg þess vegna á móti afbrigðum frá þingsköpum, en óskaði málinu betri athugunar.