06.01.1917
Neðri deild: 16. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í B-deild Alþingistíðinda. (166)

27. mál, strandferðaskip

Hákon Kristófersson:

Jeg er þakklátur háttv. þm. Stranda. (M. P.) fyrir þá kurteisi hans, að gefa oss kost á að sækja fund hjá nefndinni. Þá er jeg talaði um Gilsfjörð, gekk mjer ekki til þess að eins hreppapólitík, heldur hitt, að mjer fanst Hvammsfjörður engu rjetthærri til að komast á áætlunina. Það er alveg rjett, sem háttv. þm. Stranda. (M. P.) tók fram, að 1915 var gjört ráð fyrir því, að Breiðafjarðarbáturinn fullnægði flutningaþörfinni. En reynslan hefir sýnt, að hann gjörir það ekki einu sinni að hálfu leyti. Nú liggur í loftinu, að samgöngur verði enn verri þetta ár en gjört var ráð fyrir 1915. Jeg er háttv. þm. (M. P.) sammála um það, að ekki er hugsanlegt, að þetta eina skip geti krækt inn á hverja vík og vog. Það er langt frá mjer að halda því fram, þótt jeg minnist á einstaka hafnir, sem virðast hafa mikinn rjett á sjer. Jeg hefði getað hugsað mjer, að önnur ferðin væri áætluð á Gilsfjörð og hin á Hvammsfjörð. Eins og háttv. þm. Stranda (M. P.) veit, er jeg jafnan fús til sátta, miðlunar og samkomulags.

Háttv. 2. þm. Rang. (E. J) óskaði, að ekki væri byrjað á þrætum. Vil jeg vísa heim til föðurhúsa þeirri ásökun, hvað mig snertir. (Einar Jónsson: Sagði ekki, að menn væri byrjaðir að þræta, en óskaði, að þeir gjörðu það ekki). Þingmaðurinn ætti þá að tala svo ljóst, að ekki væri mjer svo auðvelt að misskilja hann. Sami háttv. þm. sagði, að jeg væri ekki eftirtektasamur. Þeim ómætu orðum um mig vísa jeg einnig heim til föðurhúsa, þar sem þau eiga betur heima. Ef þessi háttv. þm. (E. J.) er undir einhverjum þeim áhrifum nú sem stendur, að hann sennilega veit ekki hvað hann segir, þá hefði hann átt að hafa vit á að láta það ógjört, að sýna sig í þessari háttv. deild í dag.