06.01.1917
Neðri deild: 16. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í B-deild Alþingistíðinda. (167)

27. mál, strandferðaskip

Bjarni Jónsson:

Að eins örlítil athugasemd. Jeg hjó eftir því í ræðu háttv. þm. Stranda. (M. P.), að ekki sje hægt að heimta, að skipið komi í hverja vík og vog. Mjer hefir heldur aldrei dottið slíkt í hug. Jeg nefndi hvorki Hjallanes, sem er löggiltur verslunarstaður, nje Knarrarhöfn, nje Gunnarsstaði, nje Skarðsstöð á Skarðsströnd. En hinu verð jeg að halda fram, að sanngjarnt sje, að skipið komi bæði á Gilsfjörð og Hvammsfjörð. Hjeröðin þar upp af eru svo stór, að báturinn fullnægir ekki þörfinni. Jeg óska ekki eftir nema einni ferð að vorinu og einni að haustinu á Gilsfjörðum. Við það tel jeg unandi, ef komið er á báða firðina. Að öðru leyti situr við sama og 1915. En sje um það að ræða, að annanhvorn verði að setja hjá, er rjett að það sje Gilsfjörður, en ekki Hvammsfjörður, sem er fjölmennari. Jeg vil nefna annað. Það er ekki allskostar rjett, að sæta þurfi sjávarföllum hvað Gilsfjörð snertir. Röstin fyrir innan Akureyjar er ekki svo ströng. En aftur er það rjettmæli um Hvammsfjörð. (Matthías Ólafsson: En þokan?). Þoka er ekki kölluð sjávarföll á Breiðafirði. Jeg er þakklátur fyrir leyfið til að sækja fund hjá nefndinni.