08.01.1917
Neðri deild: 17. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í B-deild Alþingistíðinda. (171)

27. mál, strandferðaskip

Framsögum. (Þorsteinn Jónsson):

Jeg vil taka það fram, að samgöngumálanefndin hefir gjört nokkrar breytingar við áætlun þá, sem frv. fylgir, og eru þær flestar gjörðar í samráði við hv. þm. hlutaðeigandi hjeraða. Jeg gat um sumar af þessum breytingum við 2. umræðu málsins, en nú höfum við bætt við fleiri breytingum, og er það tilætlun okkar, að áætlunin verði prentuð upp og lögð fram síðan.

Búast má við, að áætlunin verði of þröng með breytingum þessum, en við lítum svo á, sem landsstjórnin geti rýmkað hana ef þörf gjörist, og þá t. d. með því, að lengja tímann, sem skipið gengur, og láta það ganga fram í desember, í staðinn fyrir að nefndin áætlaði að eins til nóvemberloka.