30.12.1916
Neðri deild: 11. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í B-deild Alþingistíðinda. (174)

20. mál, sjógarður fyrir Einarshafnarlandi

Flutnm. (Einar Arnórsson):

Af því að við bjuggumst við því, að ekki kæmu fram fjáraukalög á þessu þingi, þá völdum við þessa leið, að veita landstjórninni heimild til að greiða þetta fje, og er þetta sama leið, sem farin var á aukaþinginu 1914, eins og menn muna. En á þessu frv. stendur svo, að flóðgarðurinn, fyrir landi jarða þeirra, er í frv. getur, var spilt í vetur af sjóflóði, og er nú hin brýnasta nauðsyn á, að bætt verði úr því, og það þegar í stað.

Oss finst sanngjarnt, að landssjóður beri helming kostnaðarins, þar sem land það, sem hjer er um að ræða, að geti eyðilagst, er eitt af frjósömustu svæðunum á landinu, Flóaáveitusvæðið, og auk þess hagsmunir landssjóðs í veði beinlínis, ef ekki er gjört við þetta hið bráðasta, þar sem hjer er hafin sandgræðsla fyrir fje landssjóðs.

Annars get jeg látið mjer nægja, að vísa til brjefs þess, sem prentað er hjer með frv., frá Búnaðarfjelagi Íslands, en óska að þessu máli verði vísað til fjárveitingarnefndar.