12.01.1917
Neðri deild: 24. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í B-deild Alþingistíðinda. (199)

47. mál, bann við sölu og leigu skipa úr landi

Einar Arnórsson:

Mjer koma dá lítið kynlega fyrir sjónir þessi skoðanaskifti háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.), þar sem hann var aðalflutningsmaður frv. Biður hann nú háttv. deild í öllum guðanna bænum að drepa þetta fóstur sitt.

Háttv flutnm. (M. Ó.) ljet sjer þau orð um munn fara, að jeg hefði sett nafn hans, sem fyrsta flutningsmanns undir frv. í óleyfi hans. Jeg verð þó að leyfa mjer að lýsa því yfir, að þau orð eru algjör fjarstæða, Hann kom sjálfur til mín og bað mig að vera annan flutnm. og setti jeg nafn hans fremst, að honum og háttv. þm. Borgf. (P. O) ásjáandi. Hafði hann þá engin mótmæli í frammi, og er því síður en svo að í óleyfi væri. Enda var það ekki nema sjálfsagt, að hann væri 1. flutningsmaður, þar sem það er alkunnugt, að hann telur sig forgöngumann allra þeirra mála, er sjávarútveg snerta.

Verður því ekki vægara um þessi ummæli háttv. 1. flutnm. (M. Ó) sagt en að eitthvað sje hárugt við þau. En ummæli þessi geta alls ekki bitnað á mjer, þar sem jeg hefi votta að mínu máli. (Pjetur Ottesen: Það er alveg rjett, sem háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) segir).

Nú verð jeg að segja það, að ræða háttv. flutnm. (M. Ó.) hefir alls ekki sannfært mig um það, að hann hafi haft rangt fyrir sjer, þegar hann gjörðist flutnm. frv. þessa.

Alkunnugt er það, að í öðrum löndum er lagt á samskonar bann við sölu skipa úr landi og andmæli háttv. flm. (M. Ó.) gegn banni þessu hjer, eru sjálfsagt ekki á meiri rökum bygð en samskonar andmæli annars staðar, og hafa þau þó ekki sannfært menn þar. Nú býst jeg við, að ástandið hjer sje svipað og í öðrum löndum, og ættu því mótmæli háttv. flutnm. (M. Ó.) ekki að verða bráðdrepandi fyrir málið.

Háttv. flutnm. (M. Ó) sagði, að engir mundu hafa í hyggju hjer að selja skip úr landi. Slíkt hefir þó komið fyrir, og nefndi hann sjálfur í ræðu sinni tvö skip, sem seld hefðu verið, ekki alls fyrir löngu. (Skúli Thoroddsen: Og eitt stórt gufuskip á Ísafirði).

Þá var ein ástæðan sem hv. flutnm. (M. Ó.) færði móti frv. þessu, sem jeg tel að vísu nokkurs verða. En hún var sú, að óheppilegt væri, að menn hefðu ekki leyfi til að selja gömul skip, með það fyrir augum, að fá ný í staðinn. Þegar svo stæði á, gæti algjört sölubann verið óheppilegt.

En nú segir svo í frv. þessu, að stjórnin hafl heimild til að veita undanþágu frá banninu, þegar sjerstakar ástæður sjeu til. Má vera, að eftir frv. sje heimild þessi of takmörkuð, og hefi jeg einmitt hugsað mjer að koma með brtt., er rýmki undanþágu heimildina.

Vil jeg að stjórnin hafi fult frjálsræði til að veita undanþágu þessa, og treysti jeg henni til að bera fult skyn á, hve nær veita beri hana; t. d. þegar menn hafa í hyggju að selja gamalt skip fyrir nýtt, enda sjeu fullnægjandi skírteini fyrir því o. s. frv.

Þá vildi háttv. flutnm. (M. Ó.) gjöra mikið úr því, að fyrir gæti komið að samningar yrðu að vera svo skjótgjörðir, að ekki næðist til stjórnarinnar.

Þótt nú svo væri, þá tel jeg það ekki fullgilda ástæðu til að fella frv., því að ef alþjóðar nauðsyn krefur, þá verða hagsmunir einstaklingsins að lúta í lægra haldi.

Annars get jeg ekki skilið, að um svo skjótgjörða samninga sje að ræða, því að þótt tilboð kæmi frá öðrum löndum, mundi það ekki bundið við svo ákveðinn tíma, þar sem öll skeyti og orðsendingar um símann eru nú svo miklu seinni í ferðum en á friðartímum, og sendandi getur ekki vitað, hve nær skeyti hans kemur viðtakanda í hendur, vegna tafa á leiðinni, og getur því varla sett mjög nauman frest. Og svo má ná til stjórnarinnar í síma, svo að þessi ástæða hv. samflutningsmanns míns (M. Ó.) er harla ljettvæg.

Tel jeg það mjög líklegt, ef engar skorður verða settar, að þá rýrni skipastóll okkar, þar sem nú er geipiverð boðið fyrir skip, eg er það freisting fyrir menn að selja skip sín til þess að græða fje á þeim.

Ef jeg til dæmis ætti skip nú, og vildi hætta kaupsýslu, þá mundi mjer innan handar að selja það með 100 þúsunda til 200 þúsunda króna ábata, og setjast síðan í helgan stein, og eiga náðuga daga.

Þótt nú frv. þetta setji hömlur á brask manna, þá tek jeg það ekki nærri mjer, því að jeg álít að alþjóðar heill standi ofar en gróðafíkn einstakra manna.

Það er satt, að enginn ákveðinn tími er til tekinn í frv., en full ástæða finst mjer til, að bann þetta standi meðan sömu ástæður haldast og nú eru. Þá mundi stjórnin geta afnumið lögin með bráðabirgðalögum, ef ástæðurnar breytast skyndilega.

Sem sagt, þá hefir háttv. flutnm. (M. Ó.) ekki getað sannfært mig um, að frv. þetta sje ekki jafn nauðsynlegt og það var, þegar við sömdum það í fyrstu. En háttv. deild ræður hvað hún gjörir við það. Mjer finst það dálítið skrítið, að við veitum stjórninni leyfi til að kaupa skip fyrir ærna peninga, til þess að auka skipastólinn, af því að hann er ónógur, en setjum þó engar skorður við því, að einstakir menn rýri hann eftir vild sinni, með því að selja skip sín til annarra landa. Slíkt er ósamræmi og hreinasta mótsögn.

Þá er meira samræmi í því, að veita stjórninni heimild til að banna skipasölu og skipaleigu úr landi, og jafnframt heimild til að veita undanþágu, þegar sjerstakar ástæður eru fyrir hendi.

Ein ógætnisvilla hefir slæðst inn í sektarákvæðið í 2. gr. frv. Þar stendur 10— 200 þús. kr. í stað 10,000—200,000 kr. og mun jeg koma með brtt., sem lagfæri þetta.

Um sektarákvæðin skal jeg geta þess, að lægri mega sektirnar ekki vera, ef bannið á að koma að haldi. En ef svo fer, að sektirnar reynast of háar í einhverju tilfelli, getur sökunautur með

samningi gengið að lægri sektargreiðslu, ef hann vill, og málshöfðun niðurfallið, þar sem með málið skal fara sem almenn lögreglumál.

Vil jeg svo leyfa mjer að afhenda hæstv. forseta brtt. mína, og óska þess um leið, að háttv. deild láti mál þetta ná fram að ganga.