12.01.1917
Neðri deild: 24. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í B-deild Alþingistíðinda. (205)

47. mál, bann við sölu og leigu skipa úr landi

Einar Arnórsson:

Að eins örlitla athugasemd. Jeg get ekki af ræðu hv. þm. (P. Þ.), er síðast talaði, vitað, hvernig hann muni greiða atkvæði. (Pjetur Þórðarson: Jeg sagði: Það gladdi mig, er frv. kom fram). Jeg ætlaði að leiða sömu ályktun af sögu hans, og hann gjörði. Þetta styrkir mig í því, að frv. eigi að ganga fram.

Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.), minn góði fyrverandi samflutningsmaður að þessu frv., faðir þess og fóstri, lagði áherslu á, að útgjörðarkostnaðurinn gæti orðið svo mikill, að ekki borgaði sig að halda skipunum út. Af því ályktaði hann, að þetta frv. ætti ekki að ganga fram. Getur verið, að þessi forsenda reynist rjett. En ályktun hans er ekki rjett fyrir því. Þótt útgjörð borgaði sig ekki um stund, leiðir ekki af því, að rjett væri, að leyfa ótakmarkaða sölu skipa úr landi. Slíkt gæti lagast skjótlega, t. d. með samningum. Hann gleymdi og þeim »faktor,« að stjórnin hefir undanþáguheimildina, ef illa tekst til. Samt vona jeg, ef brtt. mín verður samþykt, að stjórnin leyfi ekki söluna alt af skilyrðislaust. Ástandið gæti fljótt breytst, og þá gæti verið stórhættulegt, að hafa fargað öllum skipastól. Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) bjóst við, að stjórnin mundi veita undanþágur, en var hins vegar svo bölsýnn, að hann bjóst við, að stjórnin myndi velta af stóli, og þá myndi koma önnur verri. Jeg fyrir mitt leyti, veit engar líkur til, að stjórnin fari frá fyrri en á næsta þingi, svo framarlega sem dauðinn tekur ekki í taumana, eða vanheilsa komi til, sem jeg vona, að ekki verði. Býst jeg því við, að háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) geti verið rólegur fram eftir sumrinu, fyrst hann treystir stjórninni, sem nú er. Því virðist mjer, sem þetta, sem háttv. samflutningsm. minn (M. Ó.) tók fram, sje að eins grýla til að hræða menn til að segja nei, er atkv. verða greidd um frv. Vitanlega mun enginn deildarmanna svo í höfðinu, að hann taki nokkurt mark á þessu.

Háttv. þm. (M. Ó.) spurði, hvaða rjett þingið hefði til að taka eignir manna. Þá er jeg heyrði það, flaug mjer það ótrúlega í hug, að háttv. 1. flutnm. frv. (M. Ó.) hefði ekki lesið það. Í frv. er alls ekki ákveðið, að taka eignir nokkurs manns, heldur að eins takmarka ráðstöfunarrjett yfir þeim. Hjer hefir verið áður samþ. í deildinni, að útflutningur á mör skuli bannaður. Var það sama sem að taka mörinn af mönnum? Háttv. samflutningsmanni (M. Ó.) þótti ekki rjettlátt, að útiloka skipin frá markaði. Þau eru með þessu frv. alls ekki útilokuð frá markaði. Auk undanþágunnar er þeim heimilaður markaður innanlands. Menn myndu hjer oft kaupa skip hver af öðrum. Hann mintist á kauphallir erlendis. Það er rjett, að þar eru skipa-»börsar«, þar sem skipaverslunin gengur greiðlega, en aftur eru skip þar svo miklu fleiri, að það jafnar hvað annað upp. En samt er talin nauðsyn á, að útiloka flutning skipa úr þeim löndum. Og þótt skipa-»börsar« sjeu og útflutningsbann, þá ber að sama brunni, því að skipin verða samt kyrr í landinu, og ef verðfall verður á skipum, hlýtur tap af því að lokum samt að lenda á þarlands mönnum. Svo að fyrir þjóðarauðinn skiftir þetta ekki máli. Af stærri skipum munu vera hjer 3, og auk þess nokkuð margt af smærri skipum, svo menn sjá, hve mikið vjer megum missa. Til merkis um, hve sjálfsagt menn í öðrum löndum telja slíkt bann á þessum tímum, skal jeg geta þess, að frá Norðmanni einum kom skeyti til stjórnarinnar, þar sem hann bað leyfis til að flytja skip úr landinu, sem hann átti hjer. Þessi Norðmaður hjelt, að hjer væri bann. Þetta er ríkt í meðvitund manna. Jeg vil að eins spyrja hv. deild, hvort viturlegra muni, að samþ. frv. með undanþáguheimild fyrir stjórnina, og tryggja með því, að skipastóllinn geti haldist óskertur, eða að láta alt dankast áfram eins og nú er.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) tók það rjettilega fram, að þótt undanþáguheimildin væri mikið notuð, væri þó alt af mikilsvert fyrir stjórnina, að vita, hvað selt er og hvað ekki.

Jeg vil bæta því við, sakir ótta hv. samflutningsmanns míns (M. Ó.) við stjórnarskifti, að það mun hægt fyrir hann, að gjöra tilraun til að fá bannlög þessi afnumin þegar á þinginu í sumar. Þá gæti hann komið með frv. um það. Annars býst jeg ekki við, að hið háa Alþingi óskaði þess, að nokkrir þeir menn tæki stjórnina að sjer, er ekki væri trúandi til að fara skynsamlega að ráði sínu í þessu efni eða öðru.