09.01.1917
Neðri deild: 18. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í B-deild Alþingistíðinda. (212)

40. mál, kaup á eimskipum til vöruflutninga

Framsm (Magnús Pjetursson):

Þetta frv. er fram borið eftir samhljóða ályktun samgöngumálanefnda Alþingis. Þó skal það tekið fram, að háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) hefir verið veikur, og ekki getað tekið þátt í störfum nefndarinnar upp á síðkastið, og var því ekki með í þessari ályktun.

Undanfarna daga höfum vjer í þessari háttv. deild verið að heimila landstjórninni ýmsar öryggisráðstafanir. Fyrst var henni heimilað að kaupa matvæli og aðrar lífsnauðsynjar landinu til tryggingar á þessu nýbyrjaða ári. Því næst heimilum vjer henni að kaupa skip, til þess meðal annars, að flytja lífsnauðsynjar út um smáhafnirnar, dreifa þeim út um landið. En enn þá hefir engin sjerstök ráðstöfun verið gjörð, til þess að auka trygginguna fyrir því, að lífsnauðsynjarnar komist til landsins. Á því veltur þó alveg um þær ráðstafanir, sem jeg áðan nefndi, og mætti því virðast svo, sem hjer væri farið aftan að siðunum, að koma síðast með tillögur til þeirrar tryggingarráðsstöfunar, sem orðið getur grundvöllurinn undir og skilyrði fyrir, að aðrar ráðstafanir komist til framkvæmda.

Hugsanlegt væri nú, að einhverir hefðu morrað áfram mókandi með þá ímyndun, að við þessu þyrfti síst að gjöra; vjer værum ekki á neinu flæðiskeri staddir, að því er snertir vöruflutninga milli Íslands og útlanda. Jeg skal fúslega játa, að sú ímyndun hefir við nokkur rök að styðjast, því að eins og bent var á í nál. og flgskj. 2 við það, þá er útlitið svo nú, að líkur eru til, að með þeim skipum, sem ætlað er að ganga eftir föstum áætlunum, muni mega flytja meiri vörur árið 1917, heldur en flutt var 1916. Þetta er sjálfsagt rjett til getið svo langt, sem það nær, en það er ekki nema hálfsögð sagan. Þess er ekki gætt, að fjöldi aukaskipa flutti hingað vörur síðastliðið ár, og enginn veit hvernig verða muni með þess konar ferðir þetta ár. Þó má gjöra ráð fyrir, að ef ástandið umhverfis oss yrði litlum breytingum undirorpið, þá væri lítil ástæða til að óttast, að skorta mundi skipakost til vöruflutninga milli Íslands og útlanda. En það vita allir, að fátt í heiminum er nú á jafn hverfanda hveli, eins og skipakostur og skipagöngur. Enn ber þess að gæta, að áætlanaskip þessi, sem jeg mintist á, og flutningsmöguleikarnir með þeim, er að miklu leyti staðbundið. Bundið við það, að flutningur til og frá landinu verði mestmegnis frá Norðurlöndum og Stóra-Bretlandi. Þetta á að minsta kosti algjörlega við skip Sameinaða fjelagsins. Þeim skipum getum vjer aldrei búist við, að snúa af braut sinni eftir okkar þörfum eða nauðsyn, enda er mjög vafasamt, hvort hyggilegt sje að varpa of miklu af áhyggjum vorum upp á það fjelag. Jeg mun síðar fá tækifæri til að minnast á Sameinaða fjelagið, og geymi mjer því að tala meira um það nú.

Oss er öllum vel kunnugt, að þær leiðir, sem jeg áðan nefndi og hingað til hafa verið okkar aðalaðdráttarbrautir, hafa verið að smáþrengjast, og hver getur eða þorir að ábyrgjast, að þær lokist ekki alveg á árinu 1917? Vjer skulum vona, að þær haldist opnar, en vjer megum ekki treysta því. Öll sund geta lokast fyrir oss og öll bönd geta brostið. Ófriðurinn getur harðnað enn, og ný ríki dregist inn í hann. Hafnbann getur lagst á ný lönd, og margt komið fyrir af líku taki. Og hvar stöndum vjer, ef vjer alt í einu stæðum uppi, án annars skipakosts til millilandaferða en Eimskipafjelagsbátanna og hins fyrirhugaða standferðadalls.

Hvernig sem annað fer, eru þó mestar líkur til, að Vesturheimur verði sá »heimur«, sem síðast lokast fyrir oss. En til þess að geta flutt þaðan nokkuð, sem um munar, vantar oss skipakost.

Það má auðvitað segja sem svo, að þessar framangreindu ástæður, sem meðal annars vöktu fyrir nefndinni og komu af stað þessu frv., sje ástæðulítill ótti, sem gangi hjartveiki næst, og vel mætti oss líka, þótt svo reyndist. En til er líka annarskonar ótti. Óttinn við það, að landið gæti tapað nokkru fje á því, að kaupa skip nú, þegar þau eru í slíku geipiverði. Ekki vill nefndin draga neinn dul á það, að ef skip falla fljótlega í verði, sem fyrir getur komið, þó óvíst sje, þá mun landið tapa talsverðu fje á slíkum kaupum. En ef svo færi, sem enginn getur af tekið, að aðflutningar teppist, vegna þess, að oss vantar skipakost, þá gæti tjón þjóðarinnar orðið svo stórkostlegt, að ekki yrði metið til peninga, og sá skaði yrði seint bættur. Ótti nefndarinnar virðist mjer því þjóðinni hollari og mega teljast forsjálni. En hinn óttinn er það sama, sem svo oft áður hefir gjört vart við sig, og endar venjulega með þeirri óheppilegu sparsemi, að spara eyrinn en kasta krónunni.

Það sæti síst á okkur nú, að hallmæla í nokkru fyrri þingum, en þess mætti þó geta, að jeg býst við, að flestir í þessari háttv. deild, og þótt víðar væri leitað, líti nú svo á, að vjer hingað til höfum verið um of smástígir, og skammsýnir með afbrigðum, að því er snertir samgöngumál vor. Það hefir oft áður komið til orða hjer á Alþingi, að kaupa skip, en aldrei orðið úr, og nú dylst víst engum, að það hafi verið að spara eyrinn en kasta krónunni.

Það er mikið fje, sem þarf til þess, að kaupa svona stórt skip nú á tímum, og verða menn því til þess að spyrja, hvar vjer getum fengið alt það fje. Því miður getur nefndin ekki svarað því ákveðið, enda býst sennilega enginn við því; hún vill að eins geta þess, að hún treystir bönkunum hjer til hins besta í þessu efni, þegar svo á stendur, að þjóðarnauðsyn krefur. Annars yrði að leita láns utan Íslands. Jeg er þó í vafa um, að það væri nauðsynlegt, því vitanlega liggur ógrynni fjár — á okkar mælikvarða — hjer í landinu í sparisjóðum og víðar, sem sjálfsagt getur verið að einhverju leyti á reiðum höndum. Og jeg efast ekki um, að þjóðin yrði fús til þess að hlaupa undir bagga, ef á hennar náðir þyrfti að leita.

»Skárri er það nú ofurhuginn«, hefi jeg heyrt menn segja, »að ætla nú, auk strandferðaskipsins, að kaupa stórt vöruflutningaskip.

Já, fyrr má nú vera ofurhugi! að alt landið ætti að þora að ráðast i, sem tryggingarráðstöfun, það sama sem einstakir menn á þessu landi hafa gjört og gjöra enn í eigin hagsmuna skyni. Nei, það er víst óhætt að segja það, að hingað til hefir ofurhugi Alþingis ekki leitt þjóðina á glapstigu.

Jeg vil, áður en jeg lýk máli mínu, lýsa yfir því fyrir nefndarinnar hönd, að þótt vjer nú leggjum til, sem tryggingarráðstöfun, að landssjóður nú kaupi skip, þá álítur nefndin, að framtíðarfyrirkomulag til eflingar samgangna vorra, verði fyrst og fremst í því fólgið, að efla sem mest og best Eimskipafjelag Íslands, og væntir, að þjóðin láti það ekki undir höfuð leggjast. En útgjörð á landsins kostnað sje að eins að skoða sem bráðabirgðaráðstöfun.

Þjóðin væntir þess af oss, að vjer látum einskis ófreistað til þess að tryggja henni lífsnauðsynjar. Og fyrsta tryggingarráðstöfunin til þess, er að tryggja oss nægan skipakost.

Það er að vísu svo, að þetta frv. er að eins heimild fyrir landsstjórnina, en nefndin væntir þess, að hæstv. stjórn sleppi ekki góðu tækifæri til skipakaupa, þótt nauðsynin ekki væri öllum augljós, og dragi það ekki of mjög á langinn. Enda er það víst, að allir góðir Íslendingar geta miklu fremur afsakað, þó gjörðar sje öryggisráðstafanir, sem síðar mætti segja um, að komast hefði mátt hjá, heldur en ofmikið tómlæti og hættulega varfærni.