09.01.1917
Neðri deild: 18. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í B-deild Alþingistíðinda. (213)

40. mál, kaup á eimskipum til vöruflutninga

Bjarni Jónsson:

Jeg held, að það sje alveg rjettmætt að segja það, að ofurhuginn hafi ekki drepið þessa þjóð nje þing, nje heldur hafi nú ofurhuginn riðið nefndina á slig.

Það er einkennilegt, að vjer, sem hjer sitjum á hala veraldar, þykjumst vera öruggir um líf vort og þarfir, þótt engin tök höfum vjer haft, eða viðleitni til þess, að tryggja oss, ef ekki væru aðrir til þess að hjálpa.

Jeg tel því nefndina hafa stigið lofsvert spor í rjetta átt og enga hættu á því, að stjórnin fari ekki að vilja hennar, því að þessi stjórn er betur sett en nokkur stjórn, sem verið hefir, til þess að krefjast fullveldis Íslandi til handa í öllum þess málum; hún þarf enga flokkaskiftingu að óttast, og getur því hafið sína göngu með því að krefjast samhuga fullrar viðurkenningar í öllum vorum málum, og þá ekki síst snúið sjer að því, eins og hæstv. forsætisráðh. (J. M.) lýsti yfir í stefnuskrá sinni, að varðveita landið.

Það er ekki um skör fram, þótt vjer gjörum nú ráðstafanir, sem ella eru óvenjulegar. En eins og vjer vitum, hefir nýlega verið hafnað friðarboðum, sem fram hafa komið. Við það harðnar ófriðurinn um allan helming, og þó mest á sjó, því að vafalaust gjöra Miðveldin alt, sem unt er, til þess að hnekkja siglingum til Englands. Hjer er þá tvent á að líta, bæði það, að vjer getum lent í skipaskorti, til þess að halda uppi samgöngum við England, og hitt, að ef hafnbann verður lagt á England, og það umgirt með kafbátum, þá er úti sú linkind, sem oss hefir verið veitt, og jeg tel oss hafa keypt of dýrt.

En hvað eigum vjer þá að gjöra?

Þá duga ekki 1—2 dallar til þess að sækja þarfir vorar til Vesturheims. En þá verður stjórnin að hafa heimild til þess, að tryggja landið á annan veg. Jeg mun því við 2. umr. koma fram með brtt. um, að veita stjórninni heimild til þess, að kaupa 2—3 skip, sem þó er líklega of lítið, en jeg þori ekki að nefna hærri tölu, af því að jeg býst þá við, að ofurhuginn kunni þá að kveinka sjer, þótt hjer sje raunar um heimild að ræða, en ekki skipun. Jeg get því sem fjárveitinganefndarmaður skrifað undir ekki að eins tillögur samgöngumálanefndar, heldur jafnvel meira.

Það væri vel þess vert, ef háttv. þm. vildi nú rifja upp fyrir sjer sögu landsins. Það, sem olli því, að vjer mistum sjálfstæði vort, var fyrst og fremst það, að vjer ljetum skipakost vorn. Ef forfeður vorir hefðu tekið þann upp, að sigla til annarra landa, en ekkert hirt um Noreg, þá væri nú hagur vor annar. Og vjer þurfum ekki annað en að líta á sögu undanfarinna ára, til þess að ganga úr skugga um það, að hið danska fjelag, sem skipaferðir hefir haft hjer, hefir rúið oss og haft af oss of fjár. Vjer sjáum það, að jafnskjótt og vjer höfum mist annað skipa vorra, þá setur danska fjelagið svo upp farmgjöld og fargjöld, að það myndi beinlínis borga sig, að kaupa tvö til þrjú skip, eða jafnvel fjögur eða fimm. Það gæti verið, að landið græddi mest á því. Farkostur gjörir eyland sjálfstætt. Vöntun farkosta gjörir eyland ósjálfstætt Og ástæðan fyrir því, að vjer höfum gjört oss óhagfelda samninga við England, er sú, að vjer höfum ekki nægan skipakost, til þess að sækja kol og salt til annarra landa. Eftir þessu verða menn að taka. Stjórnin verður að haga sjer nákvæmlega eins og Íslendingar væru í ófriðnum.

Það er alveg rjett tekið fram hjá háttv. framsm. (M. P.), að enginn veit, hve nær hinar þjóðirnar lenda í ófriðnum. Eins og jeg hefi þegar tekið fram, mun jeg því flytja brtt. til þess að gjöra frv. enn víðtækara.