11.01.1917
Neðri deild: 21. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í B-deild Alþingistíðinda. (218)

40. mál, kaup á eimskipum til vöruflutninga

Einar Arnórsson:

Að eins örlítil athugasemd. Það hefir verið talað um, og sjálfsagt með rjetti, að hafa sem rýmsta heimild stjórnarinnar til skipakaupanna. Í því skyni kom og brtt.

frá háttv. þm. Dala. (B. J.). En mjer finst heimild stjórnarinnar enn vera of þröng. Mjer finst varhugavert, að binda með lögum smálestatal skipsins eða skipanna, sem keypt kunna að verða. Tillagan ákveður, að það skuli vera 1500—2000 smálestir. En það getur verið fullkomlega rjett af stjórninni, að kaupa skip, þótt það sje undir 1500 smálestum að stærð, eða fari dálítið upp úr 2000 smálestum. Auk þess er sjerstök ástæða til að rýmka um þessi takmörk, ef stjórninni væri gefið leyfi til að kaupa mörg skip. Stjórnin myndi nú sjálfsagt taka sjer bersaleyfi til að færa tölurnar upp eða niður, ef á þyrfti að halda í reyndinni, en mjer sýnist óþarfi að freista hennar til slíkra hluta, þar sem innan handar er, að hafa heimildina nógu rúma. Jeg skýt þessu fram, nefndinni til athugunar, ef hún skyldi vilja gjöra breytingu á þessu ákvæði tillögunnar.