11.01.1917
Neðri deild: 22. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í B-deild Alþingistíðinda. (228)

40. mál, kaup á eimskipum til vöruflutninga

Pjetur Jónsson:

Það er óþarfi fyrir háttv. þm. Stranda. (M. P.), að verða svo tíðrætt um þenna ótta, sem jeg hefði, af lántöku utanlands. Síst af öllu þarf hann að tala um þenna ótta, sem eitthvað óvænt eða ókunnugt. Nefndin hefir miðað allar sínar ráðstafanir og áætlanir við kaup á einu skipi, en nú á ekki þar við að sitja, heldur á að kasta fram gjörsamlega takmarkalausri heimild, og viðvíkjandi henni ljet jeg þessi orð detta. Fanst mjer frv. líta hálf glænepjulega út í sinni breyttu mynd. Annars ber jeg það traust til stjórnarinnar, að hún fari vel og gætilega með þessa heimild sína. En hitt sjá allir, að ef kaupa skyldi heilan flota, þá fengist ekki nóg fje í landinu sjálfu, og þá yrði að taka stór lán í útlöndum, sjerstaklega þar sem ekkert er búið í hendur stjórnarinnar. En stórlánum fylgja allskonar skuldbindingar og þær álít jeg hættulegar.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) get jeg sjálfsagt aldrei orðið sammála; skoðanir okkar eru svo gagn ólíkar. Munurinn er sá, að hann berst fyrir pólitísku sjálfstæði, en jeg fyrir peningalegu sjálfstæði.