18.12.1916
Neðri deild: 2. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í B-deild Alþingistíðinda. (241)

2. mál, útflutningsgjald af söltuðu sauðakjöti

Ráðherra (Einar Arnórsson):

Jeg skal taka það fram, að stjórninni er ekki á nokkurn hátt kunnugt um það, hvað Bretar ætla sjer að gjöra við kjötið. Stjórnin veit ekki annað um það mál en að þetta var sett sem skilyrði fyrir því, að kjötið kæmist til Noregs, að Bretar fengju þessar 300 tn, sem nú er þó ekki orðið nema 100 tn.

Jeg skal, úr því að jeg stóð upp, geta þess, að jeg hitti í gær bretska konsúlinn, og sagði hann mjer, að samkvæmt beiðni okkar, væri fresturinn til að selja kjötið, framlengdur til 15. janúar n. k.