05.01.1917
Neðri deild: 15. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í B-deild Alþingistíðinda. (257)

29. mál, ullarmat

Pjetur Jónsson:

Jeg býst ekki við, að jeg standi einn fyrir svörum til andmæla þessu frv., enda mun vart lögð sjerstök áhersla á það, sem jeg segi.

Háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) skaut því fram, að ullarverðið í fyrra hefði orðið snögt um lakara vegna matsins. Jeg veit ekki, hvað háttv. þm. hefir fyrir sjer í þessu.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) færði ekki nein rök fyrir frv., sagði bara, að auðsætt væri, að nauðsyn væri að fresta lögunum, og háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó) færði ekki heldur nein rök. Það hafa í. stuttu máli engin rök verið færð fyrir því, að vjer höfum tapað í ullarverði á ullarmatinu.

Mjer er alveg ókunnugt um það, að ullin hafi hrapað í verði sökum matsins.

Eins og samningurinn um ullarverðið hljóðaði í fyrstu, var tiltekið þriggja kr. verð á 1. flokki hvítu vorullarinnar. Ef mig minnir rjett, varð sú vorull, sem ekki kæmist í 1. flokk. sett með mislitri ull á 2 kr. 20 a. pr. kg. Þessu fekst svo breytt þannig. að 2. fl. af hvítri vorull komst upp í 2 kr. 90 a. pr. kg, og þetta bygt á ullarmatsreglunum. En sem sagt, þessi lakari vorull hafði alls eigi getað heimfærst undir „príma“ull, þó ullarmatslögin hefði eigi verið, heldur að líkindum fallið undir lægri flokkana, eftir hinni gömlu skilgreining á útlendum markaði.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) talaði um ógnanir gagnvart þinginu, og skildist mjer hann telja það sjálfstæðisbrest, að fara eftir vilja kaupunautanna. Mikill má sá sjálfstæðisrembingur vera, sem vill vinna til að spilla fyrir verði á vörum landsins. Fáir munu vera svo drambsamir, að þeir vilji ekki vinna til, að vörur þeirra gangi í augu kaupendum. Sú regla mun vera algengust, hvað sem sjálfstæði líður, að haga vöruframleiðslu sinni sem næst kröfum kaupandans, ef það borgar sig vel, eins og oftast er. (Bjarni Jónsson: Ekki í stríði). Jú, alveg eins í stríði; það gildir þá sem ella, að verðið fer eftir því, hvernig kaupendunum líkar varan. Englendingar kaupa ekki ullina til þess að fleygja henni í sjóinn. Fyrir hjer um bil 20 árum, áður en farið var að selja ullina til Ameríku, keyptu Englendingar nálega alla íslenska ull, sem flutt var út úr landinu. Um það bil var maður sendur til Englands til þess að kynna sjer, hvernig Englendingar vildu hafa meðferð ullarinnar; af þessu spratt síðan vöruvöndunartilraun manna í Þingeyjarsýslu og viðar, og þaðan stafa aftur ullarmatslögin.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) tók svo eftir, að jeg væri ragur við frestunina, að eins vegna ullarmatsins sjálfs; en jeg er einnig ragur af öðrum ástæðum. Jeg er ragur vegna Englendinga, af þeirri ástæðu, að nú fá þeir alt annan grundvöll að byggja á en reynslu sína síðastliðið ár. Kaupendur fara að jafnaði eftir þeirri reynslu, sem þeir hafa fengið á vörugæðum og flokkun.

Sami háttv. þm. (B. J.) veik að því, að vöruvönduninni væri meiri hætta búin, ef lögin væru látin standa stríðstímabilið, heldur en ef þeim væri frestað á meðan. Um þetta má þrátta, en jeg er viss um, að engum, sem ant er um vöruvöndun, kemur til hugar að samþykkja frestunina. Ef þetta þing kemst að þeirri niðurstöðu, að rjett sje að kippa lögunum burtu í bili, þá boðar það ekkert annað en það, að lögunum verður kipt í burtu til fulls, þegar stríðið er úti. Það er hætt við því, að vjer, sem barist höfum fyrir ullarmatinu, verðum þá dauðir eða svo gamlir, að vjer verðum orðnir uppgefnir við að halda uppi svörum fyrir þá hugsjón.