05.01.1917
Neðri deild: 15. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í B-deild Alþingistíðinda. (259)

29. mál, ullarmat

Þórarinn Jónsson:

Jeg stend ekki upp til þess að bera blak af háttv. aðalflutningsmanni (B. J.); til þess mun hann einfær sjálfur. Jeg stend upp til þess að leiðrjetta misskilning. Sumir háttv þm. virðast skilja svo tilgang vorn flutningsmanna, að vjer sjeum yfirleitt á móti ullarmati. En sú skoðun er röng.

Jeg hafði búist við því í fyrra, að stjórnin mundi fresta framkvæmd ullarmatslaganna, sökum þess að markaðurinn var bundinn. Allir vita það, að vöruvöndun nær ekki tilgangi sínum fyrr en á frjálsum markaði. En þessi von brást. Til framkvæmdar lögunum hefir verið lagt út í ærinn kostnað, svo að mjer og fleirum blæðir í augum.

En hver er mismunurinn á því, að fresta lögunum nú og því, að gjöra það í fyrra? Háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) taldi muninn þann, að verðið hefði hækkað með tilliti til matsins. En hvernig var sú hækkun? Verri hlutinn, 2. flokkur, var hækkaður. Ef 1. flokkur, sem mjer er kunnugt um, að var verulega góð vara, hefði verið hækkaður, þá má segja, að tekið hefði verið tillit til matsins. En með þessu er ekki sýnt, að nokkurt tillit hafi verið tekið til vöruvöndunar. Þessi 2. flokkur var engu betri en ullin var yfirleitt áður fyrir ullarmatið, eins og háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) má vera fullkunnugt um. Vjer mundum því hafa fengið sama verð fyrir 2. flokk sem 1., ef ekkert mat hefði verið. Það er engan veginn sýnt, að Englendingar hafi viljað fá betri vöru, úr því að þeir hækkuðu ekki 1. flokk.

Háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) óttaðist, að lögin mundu ekki verða tekin upp aftur, ef þeim yrði frestað. Þetta er misskilningur; frestunin á ekki að standa lengur en stríðið stendur yfir. Jeg vil ekki, áð vjer tökum svo mikið tillit til Englendinga, að vjer látum þá græða á oss, einmitt fyrir þetta. En jafnskjótt sem markaðurinn er orðinn frjáls, þá eiga lögin að koma í gildi aftur.

Háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) mintist á laun ullarmatsmannanna. Jeg get svarað því strax, að jeg tel sjálfsagt, að þeir missi launin, og er jeg þar á annari skoðun en háttv. aðalflutningsmaður (B. J.), enda höfðum við ekki borið okkur saman um það atriði, þegar við bárum frumvarpið fram.