12.01.1917
Neðri deild: 23. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í B-deild Alþingistíðinda. (266)

29. mál, ullarmat

Forsætisráðh.(Jón Magnússon):

Jeg skal ekki fara út í það, hvort lögin sje nauðsynleg. En annars vil jeg taka það fram, að eftir því sem jeg veit best, myndu Bretar krefjast þess, að öll ull, sem þeir kaupa hjer, sje metin. Ef vjer gjörðum það ekki sjálfir, myndu Bretar meta og flokka hana heima hjá sjer. Jeg held því, að matið sje alveg nauðsynlegt, vegna samninganna við Breta. Ef lögunum væri frestað, myndu Bretar samt heimta matið, og það yrði oss dýrara án laganna. Vil jeg því ráða háttv. deild til að fella frv. það, sem hjer liggur fyrir. Jeg held, að menn myndi iðra þess, ef framkvæmd þessara laga væri frestað nú.