12.01.1917
Neðri deild: 23. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í B-deild Alþingistíðinda. (268)

29. mál, ullarmat

Þórarinn Jónsson:

Það er lítil athugasemd, sem jeg þarf að gjöra við það, sem sagt hefir verið í þessu máli.

Það er sýnilegt, að tvö atriði eru, sem einkum hljóta að koma til greina í þessu máli, og þau eru vöruvöndunin hjer heima og skilyrði þau, sem sagt er að Bretar setji viðvíkjandi flokkun ullarinnar.

Það hefir nú sannast undir þessum umræðum, að mótstöðumenn frv. viðurkenna, að ullarmatslögin nái ekki tilgangi sínum. (Pjetur Jónsson: Rangt). Nei, það er ekki rangt. Háttv. þm. (P. J.) hefir að líkindum ekki viljað sanna þetta, en hann hefir nú gjört það. Hann hefir sem sje upplýst það, að fyrsta flokks ullin hafi verið illa borguð, af því að sunnlendsk ull hafi lent þar saman við miklu verri ull. Þetta er ósköp trúanlegt og stafar auðvitað af flokkuninni. En þótt hann segði, að Sunnlendingar gæti verið ánægðir með það, þá sje jeg ekki, að það sje þjóðarhagur meðan fyrsta flokks ullin er dregin alveg niður undir annan flokk, og um leið spilt öllum tilgangi laganna, vöruvönduninni. Og einmitt vegna þess verður ástæða til að fresta lögunum, eða að minsta kosti til þess, að slíta sambandinu milli norðlenskrar og sunnlenskrar ullar. Því, hafi verið slengt saman við norðlenska ull sunnlenskri ull, sem var miklu lakari en hún, eins og háttv. þm. (P. J.) segir, þá hlýtur sunnlenska ullin að hafa spilt fyrir hinni norðlensku á útlenda markaðinum, og því hefir besta íslenska ullin ekki komist til síns fulla rjettar.

Ef Englendingar virða flokkun ullarinnar nokkurs, þá eiga þeir að sýna það í reyndinni með því, að gjöra mismun á verði á góðri vöru og vondri, en það hafa þeir enn ekki gjört.

Þá kemur síðara atriðið, atriðið um skilyrðin, sem Bretar hafa sett viðvíkjandi flokkun ullarinnar. Um skilyrði þessi er mjer ekki kunnugt annað en það, sem jeg hefi heyrt frá háttv. andstæðingum mínum í þessu máli, og neyðist jeg til að taka það trúanlegt. En það liggur í augum uppi, að þetta atriði hefir mjög mikið að þýða. En þar sem þeir gefa ekki betur fyrir einn flokkinn en annan, eru engin líkindi til, að sú flokkun leiði til vöndunar á vörunni, því að flestir hugsa mest um að koma henni í sem mest verð.

Um aukinn kostnað út af þessu er ekki að ræða. Þar er engu fje á glæ kastað, því að allur undirbúningur er þegar gjörður og þarf ekki að gjöra hann upp aftur, þó lögunum væri frestað, og borgun til ullarmatsmanna fellur að sjálfsögðu niður við frestun laganna. Fjárspursmálið getur því ekki verið nein grýla frá landssjóðs hálfu. Aðalskaðinn og tjónið fyrir landsmenn skeði við það, að stjórnin frestaði ekki þessu máli síðastliðið sumar. Mundi ekki hafa komið nein krafa frá Bretum um flokkun nú, ef það hefði verið gjört.

Annars vil jeg ekki gjöra þetta mál að neinu kappsmáli nú.