11.01.1917
Neðri deild: 22. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í B-deild Alþingistíðinda. (276)

45. mál, verðlaun fyrir útflutta síld

Þorsteinn Jónsson:

Mjer fellur ekki allskostar við þetta verðlaunafrv., sem hjer liggur fyrir.

Jeg var með síldartollshækkuninni, en eins og nú standa sakir, vil jeg láta sama ganga hjer yfir báða, Norðmenn og Íslendinga.

Jeg þykist þess viss, að Norðmenn verði okkur sárgramir, þegar þeir fá að vita um þennan tollauka, sem að eins á að ná til þeirra. Ef þeir sæi, að vjer ljetum sama ganga yfir þá og Íslendinga þá, er síldveiði stunda, myndu þeir sætta sig við síldartollshækkunina. Þá myndu þeir líta á hana sem hvern annan dýrtíðarskatt, sem við legðum á nú stríðstímunum. Jeg veit, að sumir halda því fram, að Norðmenn geti ekkert gjört okkur, þótt þeir reiðist okkur vegna þessarar tollhækkunar. En bæði er það, að Norðmenn hafa verið oss velviljaðir, eru nánir frændur vorir, og þar að auki nágrannar vorir. Álít jeg mikilsvert, að vjer getum haldið vinfengi þeirra. Og fari svo, að Norðmönnum þyki vjer leika þá grátt með þessu, þá geta þeir látið hart mæta hörðu. Þeir gætu t. d. lagt háa tolla á þær vörur, sem vjer flytjum inn til þeirra, svo sem kjötið. Þá væri síldarútvegurinn búinn að vinna landbúnaðinum tvöfalt tjón. Það tjón, sem hann nú vinnur landbúnaðinum með því, að draga fólkið úr sveitunum, sprengja svo upp kaupgjaldið, að landbúnaðurinn stendst ekki samkepnina, er þegar orðið mikið. En ef af honum hlytist svo í ofanálag það, að spilla fyrir afurðum landbúnaðarins erlendis, þá færist skörin upp í bekkinn. Jeg tel þetta því hættulega braut, enda álít jeg, að enginn atvinnuvegur í landinu þoli betur álögur en síldarútvegurinn. Að minsta kosti er þetta alt of alvarlegt mál, til þess að hrapa svo að því, sem hjer á að gjöra. Mætti ekki minna vera, en að stjórnin væri látin taka þetta mál til umhugsunar til næsta þings. Og í von um, að háttv. deild sje mjer sammála, leyfi jeg mjer að koma fram með svohljóðandi rökstudda dagskrá:

Í trausti þess, að stjórnin taki þetta mál til alvarlegrar rannsóknar fram til nœsta þings, þá tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.

Komist stjórnin að þeirri niðurstöðu við nánari rannsókn málsins, að rjett sje að endurgreiða íslenskum borgurum síldartollinn, þá leggur hún það fyrir næsta þing.