11.01.1917
Neðri deild: 22. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í B-deild Alþingistíðinda. (280)

45. mál, verðlaun fyrir útflutta síld

Þorsteinn Jónsson:

Það var ekki meining mín með hinni rökstuddu dagskrá, að gjöra út af við frumvarpið, heldur að það yrði betur hugsað og rannsakað til næsta þings, og eigi hrapað að því.

Mjer skildist á ræðu háttv. framsm. (M. Ó.), að jeg vildi ganga svo nærri síldarútveginum, að hann biði tjón af. Þetta er alls ekki rjett, þrátt fyrir það að síldarútvegurinn er hættulegur keppinautur landbúnaðarins. En atvinnuvegur þessi þolir betur álögur en aðrir atvinnuvegir. Er það flestum mönnum kunnugt, að á síldveiðunum hafa fjölmargir útgjörðarmenn grætt of fjár á undanförnum árum, og ekki síst nú síðan styrjöldin hófst. En gjöldin af þessum stórgróða, þau sem í landssjóð hafa runnið, eru hlægilega lítil, borið saman við það, sem nú tíðkast með öðrum siðuðum þjóðum að leggja á slíkan uppgripafjárafla. Mjer sýnist að málinu muni vera vel borgið í höndum stjórnarinnar. Sje það gott mál og heilbrigt, leggur hún það fyrir þingið í sumar. Sje það meini blandið og hættulegt þjóðinni, hefir þetta þing unnið gott og þarft verk með því að láta tímann, og nánari rannsókn leiða í ljós eðli þess. Jeg er alveg samdóma háttv. þm. V-Sk. (G. Sv.) um það, að tollfrumvarpið og verðlaunafrumvarpið þurfa alls ekki að verða samferða. Hvað Norðmönnum viðvíkur gengur mjer ekki hræðsla til, heldur hitt að jeg vil, að við sjeum varkárir í skiftum við aðrar þjóðir, og eigum ekki að egna neina þjóð á móti okkur með gálausu flani. Hefir og flestum þjóðum illa gefist að hafa tvennan rjett í landi, annan fyrir landsins eigin börn, og hinn fyrir útlendinga. Vænti jeg, að við nánari athugun muni margir af þeim háttv. þingmönnum, sem nú svellur móður, sýnast svo, sem málið þoli fáeinna mánaða rólega athugun í viðbót við þá rannsókn, sem það nú hefir fengið.

Framsögumaður hjelt því fram, að Norðmenn mundu hafa grætt stórmikið á útvegi hjer við land. En er þá ekki þessi atvinnuvegur svo arðvænlegur, að við Íslendingar þolum að bera dálítinn skatt? Það virðist ofur einfalt mál, að þeir menn í landinu, sem mestar tekjur hafa, beri eigi óriflegan hluta af byrðum þjóðfjelagsins.

Og þar sem háttv. þm. V. Ísf. (M. Ó.) þykist vilja styðja landbúnaðinn, en heldur þó fram „utanlandspólitík“ í skattamálum vorum, sem orðið gæti framþróun sveitanna hinn mesti þröskuldur, þá virðist þar nokkur skortur á samkvæmni. Og enn vafasamari yrði þessar aðgjörðir, þar sem hlunnindin af verðlaunafrumvarpinu kæmu alls ekki að verulegum notum, nema litlum hluta sjávarmanna, og það þeim, sem síst þurfa slíkra hlunninda við.