11.01.1917
Neðri deild: 22. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í B-deild Alþingistíðinda. (283)

45. mál, verðlaun fyrir útflutta síld

Pjetur Ottesen:

Þetta verðlaunafrumvarp, sem hjer liggur fyrir, er svo nátegnt síldartollsfrumvarpinu, sem samþykt var hjer í deildinni, að þau verða bæði að haldast í hendur gegnum þingið, eða þeim sje þá báðum skotið á frest, sem jeg teldi mjög illa farið.

Það þarf engum blöðum um það að fletta, að verði síldartollsfrumvarpið samþykt, en þetta felt, þá er lagður sá steinn í götu íslenskra síldveiðamanna, að minsta kosti þeirra mörgu smærri útgjörðarmanna, er stunda veiði þessa á mótorbátum, að útgjörðin mundi ekki bera sig.

Hvað síldveiðina snertir hjer við land, þá standa Íslendingar þar ólíkt ver að vígi en Norðmenn og Svíar.

Í fyrsta lagi af því, að Norðmenn hafa lagt undir sig alla bestu „upplagsstaðina“ á Norðurlandi, en Íslendingar eru þar hvarvetna hornrekur, hafá orðið að byggja bryggjur og önnur mannvirki á þeim stöðum, er þeim er sífeld hætta búin af náttúrunnar völdum, og er skamt að minnast tjóns þess, er þeir biðu á Siglufirði síðastliðið haust.

Í öðru lagi af því, að Norðmenn flytja síldveiðaáhöld sín, síldartunnur, salt o. fl. hingað á sínum eigin skipum, þeim sem þeir svo nota til síldveiðanna, en Íslendingar verða að sæta afarkostum um flutninga í sínum nauðsynjum.

Fari nú svo, að þetta frv. verði felt, en síldartollsfrv. nái fram að ganga, þá má því búast við, að það hafi þær afleiðingar, að margir þeirra manna, sem hafa í hyggju að stunda síldveiði að sumri, og hafa þegar á ýmsan hátt búið sig undir það, verði að hverfa frá því ráði, og að Norðmenn og Svíar sitji hjer einir að krásinni.

Það dylst engum, að landbúnaðurinn líður stórtjón við það, hvað síldveiðarnar draga mikið til sín af vinnukrafti þessa lands um heyannatímann, en hversu ilt, sem þetta er, þá er það engan veginn rjett, að ráða bót á þessu með því, að leggja þær kvaðir á íslenska síldveiðamenn, að þeir verði að leggja árar í bát með að stunda þessa veiði.

Það, sem þarf að gjöra, er það, að reisa öflugar skorður við því, að þessir útlendingar, sem ausa hjer upp gullinu úr nægtabrunni landsins eigin barna, og nota til þess okkar eigin vinnukraft, til stór hnekkis atvinnuvegum landsins, að þessum mönnum sje með lögum gjörð svo þungfær sú atvinnubraut, að þeir sjái sinn kost vænstan að hverfa hjeðan.

Það er svo sem vitanlegt, að þessi 3 kr. tollur fælir þá ekki frá að veiða hjer, meðan svona stendur, en nú eru þeir tímar, að varlega verður að fara, og eigi þótti tækilegt að stiga stærra spor að sinni, og þykir sumum þó helsti langt gengið.

Jeg vil því eindregið mæla með því, að frv. verði samþykt.