12.01.1917
Neðri deild: 23. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í B-deild Alþingistíðinda. (290)

45. mál, verðlaun fyrir útflutta síld

Einar Arnórsson:

Það gleður mig að tveir háttv. þm., hæstv. forsætisráðherra og háttv. þm. Dala. (B. J.), hafa skilið það, að ummæli mín í gær voru ekki sprottin af ertni eða kerskni, nje heldur alveg út í bláinn eða að þarflausu töluð. Sjerstaklega hefir það glatt mig, að hæstv. forsætisráðherra hefir tekið í sama strenginn og jeg, og er hann þó lögfræðingur og ekki talinn með þeim lakari hjer.

Það, sem háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) sagði, var ekki betra en jeg bjóst við.

Jeg hugsaði sem svo, að nú hefði hann þó fengið næturfrest til þess að athuga málið. Bjóst jeg við, að hann mundi nota þann frest, en sje nú að hann hefir ekki gjört það. Því þótt hann sje ekki lögfræðingur „af Profession“, þá er þetta ekki svo strembið atriði, að hægt hefði verið fyrir hann að fletta upp í lögum þeim, er snerta þetta efni. En jeg fyrirgef honum það nú samt, þótt hann þykist ekki hafa haft föng á að athuga þetta. Hitt get jeg miklu síður fyrirgefið, að sú háttv. nefnd, sem hefir leitast við að kara málið — jeg segi ekki, að hún hafi gjört það til fulls, — að hún skuli ekki hafa athugað það. Viðvíkjandi 2. gr., þar sem talað er um erlend skip, þá hefir háttv. frsm. (M. Ó.) alls ekki svarað spurningu minni um það, hvað meint væri með þeim orðum.

Hugtakið „erlend skip“ nær, eftir almennum skilningi, yfir öll þau skip, sem ekki eru skrásett hjer á landi. En lagalega skoðað er hugtak þetta andstæða við hugtakið „íslensk skip“, og kemur þá nokkuð annað út. Lagalega skýringin á hugtakinu „íslensk skip“ er í 1. gr. Siglingalaganna 30. nóv. 1914, og vil jeg með leyfi hæstv. forseta leyfa mjer að lesa þá grein:

„Þau skip teljast íslensk, sem heimili eiga á Íslandi, og að 2/3 hlutum minst eru eign manna, sem heimilisfastir eru á Íslandi eða í Danmörku, eða þar innbornir, án þess að vera ríkisborgarar annars staðar. Nú er skip hlutafjelagseign og skal þá meiri hluti stjórnarnefndarmanna vera búsettur á Íslandi og heimilisfang fjelagsins þar, enda fullnægi hver stjórnarnefndarmaður framangreindum skilyrðum um heimilisfestu eða rjett innborinna manna. Þó má ráðherra Íslands veita hlutafjelögum undanþágu frá síðastnefndum ákvæðum, þegar að minsta kosti 2/3 hlutar stjórnarnefndarmanna fullnægja skilyrðunum um heimilisfestu.“

Skip geta því talist íslensk, þótt ekki sje þau eign íslenskra manna, svo framarlega, sem þau eru skrásett hjer, og sje þau hlutafjelagseign, þarf að eins meiri hluti stjórnar fjelagsins að vera búsettur hjer.

Og þar sem það nú í 2. gr. er gjört að skilyrði fyrir verðlaunum þessum, að síldin sje ekki veidd á „erlend skip“, og annað ekki, þá sje jeg ekki betur en að margir útlendingar geti alveg eins orðið aðnjótandi þessarra góðu verðlauna. Að minsta kosti er það svo samkvæmt skýringu löggjafarinnar á orðunum „ís1ensk skip“.

Efast jeg þó um, að það hafi verið tilgangur háttv. flutningsmanna.

Vil jeg því gjöra það að tillögu minni, að málið verði tekið út af dagskrá og umr. frestað. Býst jeg við, að háttv. nefnd fallist á þetta. Mundi mjer vera sönn ánægja í því, að reyna að búa til brtt., er bætt gæti nokkuð úr ágöllum frv., ef nefndin ljeti í ljós ósk um það.

Um ræðu háttv. þm. Dala. (B. J.) ætla jeg ekki að fara mörgum orðum. Virtist mjer hún helst vera nokkurs konar „pia desideria“ eða hugheilar óskir um, að þetta og þetta væri nú svona og svona.

Hann sagði, að íslenskur þegn væri hver sá, er hefði öll rjettindi hjer. Eitthvað er bogið við það. Get jeg ekki sjeð, að maður þurfi að hafa öll hugsanleg rjettindi til þess.

Enginn mun t. d. mótmæla því, að íslenskir karlar undir 25 ára aldri og konur undir 40 ára aldri sje íslenskir þegnar, en þó hafa þau ekki kjörgengi eða kosningarrjett til Alþingis.

En þetta skiftir ekki miklu, þar sem við erum sammála um, að orðalagið á frv. sje óheppilegt.

Hugtakið „íslenskur borgari“ er mjög óákveðið og kemur ekki fyrir í íslenskum lögum svo jeg viti til.

Í stjórnarskránni er að vísu talað um „borgaraleg“ rjettindi, en ekki get jeg sjeð, að af því orði verði dregið, hvað í hugtakinu felist.

Einn mikilsvirtur lagamaður hefir rannsakað, hvað í hugtakinu „íslenskur borgari“ ætti að felast. Kemst hann að þeirri niðurstöðu, að sá, sem kallast má „íslenskur borgari“, hafi hjer lögvarinn landsvistarrjett, og að íslenskur borgararjettur sje lögvarinn landsvistarrjettur. En nú hafa, að jeg held, allir þeir, sem hjer stíga á land, og eigi gjöra sig seka um refsiverð afbrot eða þurfa fátækrastyrks, rjett gagnvart íslenskum stjórnarvöldum til að hafa hjer heimili sitt og gjörast þar með íslenskir borgarar. En ef þetta felst í hugtakinu „íslenskur borgari“ og „íslenskur borgararjettur“, þá kæmu fleiri en boðnir voru, þá fengju fleiri síldarverðlaunin en háttv. frsm. (M. Ó.) og sjávarútvegsnefnd munu hafa ætlast til.

Ef því orðið „íslenskur borgari“ er látið standa í frv., verður ekki hjá því komist, að nánari skýring á hugtakinu fylgi með í sjálfum lögunum, ef frv. verður að lögum.

Jeg verð samkvæmt því, sem jeg hefi tekið fram, að halda því eindregið fram, að ef það er tilgangur háttv. deildar, að afgreiða frv. þetta, þá getur hún ekki, sóma síns vegna, látið það ná fram að ganga, eins og það er nú úr garði gjört, og verður því varla annað fyrir en að taka það út af dagskrá.