12.01.1917
Neðri deild: 25. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í B-deild Alþingistíðinda. (300)

45. mál, verðlaun fyrir útflutta síld

Einar Arnórsson:

Það er mjög leiðinlegt, að ekki skuli vera hægt að tala svo um alvarleg mál hjer, að ekki þurfi að fljettast inn í það persónuleg ónot.

Háttv. framsm. (M. Ó.) sagði, að jeg vildi íþyngja sjávarútveginum. Það er síður en svo, að jeg vilji það, en á hitt lít jeg svo, að það gæti orðið útveginum mikið tjón, ef svona frv. yrði samþykt. Hins vegar er ekki ólíklegt, að háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) gjörði sjávarútveginum tvísýnan greiða, ef hann kæmi frv. þessu gegn um þingið.

Háttv. sami þm. sagði, að jeg væri með þessu að vekja Norðmenn til umhugsunar um þetta mál. Jeg get frætt hann á því, að þeir eru eldri en tvævetrir, og það þarf ekki að vekja þá neitt í þessu máli.

Háttv. sami þm (M. Ó) sagði, að vjer ættum að halda fram málum vorum, án þess að taka tillit til þess, hvað aðrar þjóðir kynnu að segja.

Þingmaðurinn vill láta fara að eins og sagt er að strúturinn gjöri, þegar hann heldur að hætta sje á ferðum. Hann stingur höfðinu í sandinn til þess að hann sjái ekki, og hygst svo komast hjá hættunni.

Mjer hefir aldrei dottið í hug að neita, að Norðmenn standi betur að vígi en Íslendingar við síldarútveginn, en það leiðir einungis til þess, að vjer verðum að hlynna að útveginum með skynsemd, en ekki á líkan hátt og þennan, sem hjer er farið fram á. Slík lög, sem þessi, frá þessu þingi, gæti orðið tvíeggjað sverð, geta vel unnið útvegi vorum miklu meira tjón en gagn.