11.01.1917
Neðri deild: 22. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í B-deild Alþingistíðinda. (304)

48. mál, afnám laga

Flutnm. (Bjarni Jónsson):

Aðalástæða mín fyrir frv. þessu er sú, að verðhækkunartollur sá, sem hjer er um að ræða, er blátt áfram ranglátur og lagður á út í loftið. Sýndi jeg líka fram á það á þingi 1915, þegar hann var lagður á. Ef menn vilja nú athuga þessi orð mín nánar, þá ber fyrst að gæta þess, að vanalegar tekjur landssjóðs nema tveim miljónum króna á ári. En verðhækkunartollur þessi hefir numið einni miljón króna á síðasta ári.

Þessi gífurlegi tollur, sem jafnast á við helming allra venjulegra tekna landssjóðs, er lagður á tvær atvinnugreinar, og það án alls jafnaðar, og sýnir þetta berlega ranglæti það, sem hjer er haft í frammi.

Þessar tvær atvinnugreinar, sem slíkum ójöfnuði sæta, eru sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn.

Sjávarútvegurinn getur að vísu verið uppgripaatvinna, þegar alt fer eftir óskum, þegar fiskur veður uppi og gæftir eru og alt gengur eins og í sögu segir. En hitt er eins títt um þá atvinnugrein, að alt veltur um koll á svipstundu, allur gróði fer forgörðum, og stórtjón og slys verða að. Í fám orðum sagt þá er atvinnugrein þessi bæði dýr og hættuleg, og þar að auki ný hjer, svo að það er síður en svo, að íþyngja beri henni með lítt viðunandi tollum, þótt eitthvað beri betur í veiði í eitt skifti en annað.

Þá er hin atvinnugreinin, landbúnaðurinn. En um hann má segja, að hann sje grundvöllur undir allri velmegun og menning í landinu, hinn fasti grundvöllur þjóðfjelagsins. Því þaðan er þeirrar hjálpar að leita, sem bjargað getur landi og þjóð, þótt allir aðrir atvinnuvegir fari forgörðum.

Það má því heita fífldjarft verk af þinginu, að leggja þennan ójafnaðarskatt á hann, og það öllu fremur en að leggja hann á sjávarútveginn, sem stendur þó í blóma í bili, hve lengi sem það verður.

Skattur þessi er líka ranglátur vegna þess, að hann er lagður á heilar atvinnugreinir. En það gefur að skilja, að ástæðum manna, sem þær stunda, er misjafnlega háttað. Það er að vísu satt, að útvegsmenn margir hafa auðgast mjög á síðari tímum, og mun þeim ekki ofvaxinn skatturinn En hitt er jafnsatt, að meðal þeirra manna, sem sjávarútveg stunda, eru öllu fleiri fátækir hlutamenn, sem bera verða skattinn.

Sama má segja um bændur; þeir eru nú sem stendur margir einyrkjar, óhætt að fullyrða, fleiri en helmingur þeirra, og ástæður þeirra síður en glæsilegur, sumra hverra.

Niðurstaðan verður því sú, að aukaskattur þessir lendir á fjölda mörgum fátækum bændum og sjómönnum og þar með þar, sem síst skyldi.

Þá er líka þess að gæta, að atvinnugreinar þessar tvær verða að taka þátt í öllum öðrum gjöldum til landssjóðs, þrátt fyrir skatt þenna, en aðrar atvinnu- og tekjugreinar undanþegnar þessu mikla gjaldi, og ekkert lagt á þær til jafnaðar.

Þá er enn eitt ranglæti við gjald þetta. Þar er að eins miðað við verðhækkun, en ekkert tekið tillit til kostnaðarins við að framleiða vörurnar.

Nú mun það öllum kunnugt, að allur framleiðslukostnaður hefir vaxið gífurlega síðan 1915, og þarf ekki að leiða rök að því hjer, þar sem svo margir háttv. þm. sitja, sem kunnugir eru ýmsir sjávarútvegi og aðrir landbúnaði.

Mun þeim öllum ljóst hve aukist hefir framleiðslukostnaður síðan 1915, svo að það, sem var þolandi þá, er óþolandi nú.

Af þessum ástæðum einum ætti því að afnema tollinn nú.

Mótbárur á móti því hefi jeg engar heyrt, nema þá eina, að varhugavert sje að kippa tekjum þessum burt af landsjóði.

Að því er þekkingu mína á því atriði snertir, þá stend jeg þar höllum fæti, því að fjárhagsnefndin hefir ekki enn þá gefið neina skýrslu um hag landsins, sem henni var skylt. Annars býst jeg við, að hún ætli sjer að vinna að henni milli þinga, því nú er hún sögð allheimfús orðin, og alment er búist við því, að ekki muni brenna undir henni hjer að þessu sinni. Undan skil jeg þar háttv. sessunaut minn, þm. N-Ísf. (Sk. Th.)

Annars má benda á það, að auk þess, sem áætlað var í fjárlögunum, hafa tekjur landsjóðs aukist um eina miljón af ójafnaðarskatti þessum.

Hygg jeg því, að fje hans mundi hrökkva til, þótt ríflegar væri veitt en gjört hefir verið á þessu þingi.

Þekki jeg reyndar þá menn, er því halda fram, að ekki megi snerta á peningum landsjóðs til að bæta hag landsmanna, og þá því síður afnema tolla þótt ranglátir sje. Segja þeir, að geyma þurfi peningana til þess að kaupa skip fyrir, ef á liggur. En undarlegt þykir mjer það, ef taka ber skipsverð það úr vösum tveggja stjetta einna saman.

Annars er það heimska, að ætla sjer að kaupa skip fyrir eins árs tekjur. Til þess þarf auðvitað að taka lán, og er það trúa mín, að ekki þyrfti að leita út úr landinu með lántöku þá.

Jeg vil nú segja þann minn hug, að jeg treysti stjórninni til að gjöra hæfileg og skynsamleg fjárlög fyrir næsta þing. Því er engin ástæða til að halda í þetta gjald, en full ástæða til að fella það úr gildi. Í júlí í sumar verður komið mikið framhald af gjaldabyrðinni á landbúnaðinn, því að þá verður búið að selja ullina. Jeg tel allsendis óþarft, að búa lengur undir lögum þessum, því að sýnt er, að þegar er búið að taka of fjár með þeim. Þess er engin þörf, að safna í sparisjóðsbók tveggja ára fje. Tel jeg sæmilegra að leita nú einhvers rjettlætis í þessu efni, og það á að gjöra með afnámi þessara ranglátu laga.

Jeg þykist þess fullviss, að afbrigði verða leyfð í þessu máli, fyrst hvert mál fær þau. Jeg er sannfærður um, að það verði afgreitt á þessu þingi, því að gjarnan munu fulltrúar landbúnaðarins vilja ljetta af honum þessu gjaldi. Fyrir hönd minna kjósenda, Dalamanna, vil jeg gjöra mitt til að þessu rangláta gjaldi verði afljett.

Skal jeg svo ekki segja fleira, en vona að forseti leiti afbrigða.

Þá var leitað afbrigða, og þau leyfð og samþykt.